14.4.2007 16:53

Laugardagur, 14. 04. 07.

Þær ræddu í Kastljósi að kvöldi 13. apríl um setningarræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á landsfundi Samfylkingarinnar fyrr um daginn Kristrún Heimisdóttir Samfylkingu og Ragnheiður Elín Árnadóttir Sjálfstæðisflokki undir stjórn Sigmars Guðmundssonar. Framganga Kristrúnar var á þann veg, að allar venjulegar reglur í slíkum þáttum voru brotnar. Ragnheiður hafði varla sagt hálfa setningu, fyrr en Kristrún greip af henni orðið. Þá veifaði Kristrún einhverjum bæklingum, sem ekki voru á dagskrá þáttarins. Undir lok hans sagðist stjórnandinn ekki hafa komið því að, sem hann vildi. Hvers vegna er allur þessi æsingur nauðsynlegur, þegar Samfylkingin eða málstaður hennar á í hlut? Hvers vegna er ekki reynt að hafa hemil á þessu fólki, sem telur sig yfir aðra hafið og ekki eiga að lúta neinum almennum leikreglum?

Hallgrímur Helgason, samfylkingarmaður, skáld og málsvari Baugsveldisins, kveður sér hljóðs í Morgunblaðinu í dag vegna óánægju sinnar yfir því, að í Kastljósi þar sem rætt var forystumenn framboða og um utanríkismál hafi ekki verið minnst á Íraksstríðið og telur þetta megi rekja til þess, sem skipaði útvarpsstjóra auk þess sem hann ræðst á fréttamenn RÚV og telur sig getað skipað þeim fyrir verkum.

Síðan kemur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að loknum landsfundi Samfylkingarinnar og heldur áfram gamla söngnum um, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi í raun ekki tilverurétt frá sjónarhóli jafnaðarmanns. Það sé eitthvert norrænt vandamál, að Sjálfstæðisflokkurinn njóti mikils fylgis hér á landi.  Því minna sem fylgi Samfylkingarinnar verður hér á landi þeim mun meira talar Ingibjörg Sólrún um norræna jafnaðarmenn og ágæti þeirra. Þeir njóta þó hvorki í Svíþjóð né Danmörku nægilegs trausts til setu í ríkisstjórn.