16.1.2007 22:01

Þriðjudagur, 16. 01. 07.

Ríkisstjórn samþykkti í morgun tillögu, sem flutt var að frumkvæði mínu, um að stofna starfshóp undir formennsku Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um úrræði vegna þeirra, sem verst eru settir af ofneyslu vímuefna eða vegna persónuleikaraskana. Félagsmálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra munu tilnefna fulltrúa í nefndina auk mín.

Á alþingi hélt stjórnarandstaðan áfram að ræða um hlutafélagavæðingu RÚV. Ég sé á þingfréttasíðu Morgunblaðsins í dag, að nýjum þingfréttaritara blaðsins, sem ég veit ekki hver er, þykir fréttnæmt við umræðurnar í gær, að Mörður Árnason skuli hafa flutt þriggja tíma ræðu, án þess að bregða sér á salerni. Þetta er nýstárlegt þingfréttamat, en segir kannski allt, sem segja þarf um þriggja tíma boðskap Marðar.

Mörður fór svo ég viti. ekki upp í upphafi þingfundar í dag til að finna að fréttinni í Morgunblaðinu, hins vegar sá stjórnarandstaðan ástæðu til að ávíta Pál Magnússon útvarpsstjóra fyrir grein í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann svaraði ranghermi ritstjóra Fréttablaðsins  um almenna andstöðu við  frumvarpið um RÚV ohf.

Í dag þótti Stöð 2 það fréttnæmt, að Hlynur Hallsson, varaþingmaður vinstri/grænna, væri með hálsbindi og á því væri mynd af hauskúpu, þá þótti einnig í frásögur færandi, að erindi úr Ferðalokum eftir Jónas Hallgrímsson væri letrað á jakka Hlyns, loks þótt fréttamanni hárgreiðsla Hlyns tíðindum sæta.

Allt sýnir þetta, hve mikla athygli málflutningur stjórnarandstöðunnar vekur, þegar hún tekur sig til og leggur þingsalinn undir sig með löngum ræðum, enda kemur í ljós, að henni er ekki meira niðri fyrir um efni frumvarpsins en svo, að hún vill semja um afgreiðslu þess, ef gildistaka laganna er ekki fyrr en eftir kosningar.