4.12.2006 22:14

Mánudagur, 04. 12. 06.

Hef verið á fundum um Evrópumál í Brussel í dag. Hitti Kristján Andra Stefánsson, stjórnarmann Íslands í eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Sat síðan fund með Schengen-ráherrum og loks kvöldverðarfund með dómsmálaráðherrum Sviss og Noregs, þar sem við ræddum framtíðarskipan samstarfs okkar við ESB-ríkin á Schengen-vettvangi, eftir að þeim fjölgar.

Þeir Kristófer Helgason og Þorgeir Ástvaldsson á Bylgjunni hringdu í mig síðdegis og ræddu við mig um nýjustu James Bond-myndina, sem ég gaf þrjá og hálfa stjörnu.

Ég sá á netinu, að í þættinum Pólitik á Stöð 2, sem virðist settur til höfuðs Silfri Egils, og sendur er út á laugardögum, ræddi Svavar Halldórsson um öryggismál við gesti sína og meðal annars við Silju Báru Ómarsdóttur, forstöðumann Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands og var hún spurð um ógnir, sem steðjuðu að Ísland. Silja Bára sagði:

„ Sko, já eftirlit með hverju, varnir gegn einhverju eða einhverjum. Vitum við um einhverja óvini sem að hérna eru á leiðinni að koma að ráðast á okkur eða erum við, þurfum við að hugsa um svona nýja hluti. Nú erum við með þennan samning við Bandaríkjamenn sem að á að tryggja okkur vernd á ófriðartímum og er verið að leita að einhverri vernd og vörnum á sem sagt friðartímum núna í yfirstandandi fundum hjá utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Ef 
þú ætlar út í samningaferli, ef þú ert að fara að kaupa þér bíl þá 
náttúrulega mótar þú þér hugmynd um það hvað þú ætlar að eyða í bílinn og hvernig bíl þarftu. Þú ferð ekki að kaupa þér sportbíl ef þú átt 7 börn og ætlar að nota bílinn til að koma þeim á milli staða. Þannig að auðvitað þarftu að hafa hugmynd um það hvað þú ætlar að fá út úr ferlinu áður en þú byrjar á því og það kannski er hérna, það er svolítið skrýtið að segja sko, ja nú erum við bara að byrja að ræða við Pólverja, Dani, Norðmenn um það hvað þeir geta boðið okkur og eigum við þá að skilgreina varnarþörfina út frá því hvað er í boði, hvað er hægt að verja. Eigum við ekki fyrst að segja sko hvað þurfum við að verja og fara svo að leita að þjónustunni til þess að tryggja það. Mér finnst það svolítið verið að byrja á öfugum enda.“

Þegar þessi texti er lesinn, er ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri, að höfundur hans hafi ekki minnstu hugmynd um öryggis- og varnarmál. Raunar er kannski ekki við því að búast hjá stofnun, sem kennd er við alþjóðamál og hlýtur samkvæmt þessu að vera að sinna einhverju öðru en öryggis- og varnarmálum. Utanríkismálastofnanir annars staðar á Norðurlöndunum hafa innan sinna vébanda sérfræðinga, sem geta lagt eitthvað af mörkum til umræðna um öryggis- og varnarmál. Alþjóðastofnun Háskóla Íslands er að sinna einhverju allt öðru og þegar hún kallar saman fund um Evrópumál eru það aðeins innvígðir talsmenn aðildar að Evrópusambandinu, sem fá að tala, ef marka má blaðaskrif undanfarið.