14.11.2006 22:40

Þriðjudagur, 14. 11. 06.

Var í hádeginu í Breiðholtskirkju, þar sem séra Sigurjón Árni Eyjólfsson afhenti okkur herra Karli Sigurbjörnssyni biskupi bók sína Ríki og kirkja.

Ég hef oftar en einu sinni vakið máls á furðulegum málflutningi Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, hér á síðunni, en hann verður í fyrsta sæti flokksins í suðurkjördæmi í komandi þingkosningum. Enn er ástæða til að nefna hann til sögunnar eftir umræður í upphafi fundar á alþingi í dag, þar sem Sæunn Stefánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, vakti máls á rangfærslum Björgvins um kosningaloforð framsóknarmanna frá því fyrir kosningar 1999 um að varið skyldi sérstaklega einum milljarði króna í baráttuna gegn fíkniefnum. Björgvin telur, að loforðið hafi ekki verið efnt en Sæunn nefni 1700 milljónir til sögunnar til að hnekkja þessum rangfærslum. Björgvin lét sér að sjálfsögðu ekki segjast heldur barði hausnum áfram við steininn.

Hvað knýr Björgvin til að byrja núna að þrasa um framkvæmd þessa kosningaloforðs frá 1999? Jú, svona rifrildi um tölur er þess eðlis, að alltaf má toga þær út og suður - nú er mikil umræða um fíkniefnavandann og þess vegna sé ágætt að  klína honum á Framsóknarflokkinn með því að segja hann hafa svikið kosningalorforðið um milljarðinn frá 1999. Þetta er enn til marks um, hve Björgvin lægst lágt í málflutningi sínum. Enn sannast, að ekki er  gott fyrir neinn málstað, að Björgvin vilji slá sér upp á honum.