20.10.2006 21:32

Föstudagur, 20. 10. 06.

Klukkan 11.00 var ég á Grand hotel, þar sem hófst ráðstefnan Björgun 2006, sem haldin var af Slysavarnafélaginu Landsbjörgu en þar rituðum við Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra undir samning við félagið um tetra-væðingu þess, sem er stórt skref í öryggismálum þjóðarinnar. Auk þess var kynnt, hvernig yrði staðið að því að tetra-væða allt landið og verður Ísland þá fyrsta land, sem býr við slíkt öryggi í fjarskiptum á landsvísu.

Klukkan 15.00 var ég í Þjóðmenningarhúsinu og rituðum við Árni Mathiesen undir samning við biskup um yfirráð yfir prestssetrum og var með honum bundinn endir á áratuga langar deilur ríkis og kirkju.

Klukkan 18.00 voru við Rut í gömlu jarðhúsunum í Ártúnsbrekkunni, sem verið er að breyta í listamiðstöð. Er skemmtilegt að sjá, hve vel hefur til tekist.

Furðulegt var að hlusta á þau ummæli Jóns Baldvins Hannibalssonar, að ekki væri unnt að taka mark á orðum Róberts Trausta Árnasonar, fyrrverandi sendiherra og ráðuneytisstjóra, af því að hann væri alkunnur hægri maður. Hvernig er með Jón Baldvin? Eigum við, sem erum ósammála honum í pólitík ekki að taka mark á honum, þegar hann fabúlerar um hleranir? Hefur hann ekki einmitt krafist þess, að hann sé tekinn svo hátíðlega, að málið sé rannsakað? Síðan þegar það er gert, segir hann rannsóknina ekki munu skila neinu! Þetta minnir aðeins á dagana, þegar Jón Baldvin var virkur í stjórnmálunum og engu var líkara á stundum en orð og gerðir ættu aðeins hafa martækt gildi á milli fréttatíma.