7.8.2006 20:52

Mánudagur, 07. 08. 06.

Fréttir síðan á föstudag hafa að mestu snúist um hátíðir, umferð og störf lögreglu. Ég heyrði í fréttum sjónvarpsins í kvöld, að talið er, að um 50 þúsund manns hafi sótt hátíðir af ýmsu tagi alls staðar um land en athygli hefur mest beinst að hinum fjölmennustu. Banaslys varð í umferðinni rétt austan við Selfoss í nótt sem leið og setti skugga á hátíðina, sem virðist hafa farið fram innan hóflegra marka, þótt sagt hafi verið fíknefnabrotum og ölvunarlátum af ýmsu tagi.

Þetta er annamesta helgi lögreglu og hefur hún sífellt búið sig betur undir hana, þar á meðal með skýrum og ströngum kröfum til þeirra, sem bera ábyrgð á hátíðum. Lögregla stóð að þessu sinni eins og svo oft áður undir því trausti, sem hún nýtur.

Erfitt er að skilja málstað þeirra, sem leitast við að gera öryggiseftirlit lögreglu á svæðinu við Kárahnjúka tortryggilegt, en telja á hinn bóginn sjálfsagt og eðlilegt, að lögregla hafi eftirlit með þeim, sem sækja skipulagðar útihátíðir, spyrji þá, hvað þeir hafi meðferðis og noti hunda til leitar. Er síður ástæða til að hafa eftirlit með mannaferðum á lokuðum vinnusvæðum við Kárahnjúka og fara að óskum þeirra, sem ráða yfir slíkum svæðum og landi í nágrenni þeirra, en þeim, sem eru að fara á úthátíðir eða brjóta gegn lögum og reglum í umferðinni? Yrði það talið ámælisvert fyrir lögreglu við störf á útihátíðum, að hún beitti þá valdi, sem neituðu að fara að fyrirmælum hennar þar? Þykir ekki öllum sjálfsagt að reynt sé að hafa hendur í hári þess, sem ekur á 200 km hraða á bifhjóli? Hvers vegna á annað að gilda um þá, sem brjóta gegn lögum og reglu í nágrenni Kárahnjúka?