12.7.2006 20:51

Miðvikudagur, 12. 07. 06.

Í dag bárust fréttir af réttarhöldum yfir tveimur Litháum í héraðsdómi, en þeir sitja undir ákærum um innflutning á basa til amfetamínframleiðslu. Fyrir skömmu voru tveir Litháar teknir við komu til landsins með Norrænu einnig með vökva til amfetamínframleiðslu.

Hér skal ekkert fullyrt um sekt eða sýknu í þessum málum en þau ýta enn undir umræður um, að hér hafi erlendir glæpahringir stungið niður rótum. Ég hef um langt skeið varað við hættunni á þessu eins og sjá má í ræðum, sem birst hafa hér á síðunni. Ég hef einnig verið eindreginn hvatamaður þess, að lögregla leggi meiri áherslu en áður á greiningu og mat á áhættu. Einfeldningslegt er að álykta á þann veg, að greiningardeildir lögreglu einbeiti sér að því að greina hættu vegna hryðjuverkamanna - að sjálfsögðu spannar mat þeirra alla þætti lögreglustarfa, enda er markmiðið að nýta krafta lögreglu sem best til að snúast gegn þeirri hættu, sem á hverjum tíma snýr að almenningi í hvaða mynd, sem hún birtist.

Valtýr Sigurðsson, fangelsismálastjóri, hefur réttilega vakið máls á hættunni á því, að fjölgun útlendinga í fangeslum leiði til þess, að þar skapist tengsl milli innlendra og erlendra afbortamanna. Fjölgun útlendinga í íslenskum fangelsum kallar á ný viðbrögð og er enn ein röksemdin fyrir því, að gengið verði til þessa að bæta húsakost fangelsa og skipulag hans.

Horfði á viðræður við þá Pál E. Winkel, framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna, og Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjón í Reykjavík, í þættinum Ísland í bítið á NFS, en rætt var við þá um stöðu lögreglumála. Ég vona, að efasemdarmenn um gildi greiningarstarfs hjá lögreglunni hafi horft á þennan þátt.