24.6.2006 22:57

Laugardagur, 24. 06. 06.

Tók því rólega í veðurblíðunni og gaf mér tíma til að hvíla mig eftir atburði vikunnar. Um kvöldmatarleytið barst mér Morgunblaðið með miklu viðtali við Jón Gerald Sullenberger. Ég hafði varla lokið við að lesa það, þegar ég sá yfirlýsingu frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs á Mbl.is, þar sem segir meðal annars:

„Björn Bjarnason boðaði á heimasíðu sinni 15. mars að þótt sýknað hefði verið í málinu gegn mér og öðrum, þá myndi það halda áfram. Vísaði hann til þess að þó að Júlíus Sesar hafi verið myrtur þá hafi Rómaveldi lifað. Baugsmálinu var framhaldið og tveimur dögum síðar ritar ráðuneyti Björns dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna bréf með beiðni um aðstoð þarlendrar lögreglu við yfirheyrslur tilgreindra einstaklinga í Flórída. Í bréfinu er mjög hallað réttu máli gagnvart mér og öðrum sakborningum í Baugsmálinu. Þarna hefur gremja Björns verið skynsemi hans sterkari og hann freistast til að hafa bein afskipti af málinu, sem hann þykist þó aldrei hafa gert. Styrmir beitir síðan Morgunblaðinu með eftirgreindum hætti til að reyna að bæta ímynd Jóns Geralds Sullenberger eftir útreiðina sem hann hefur fengið í dómssölum:......"

Samsæriskenningar verða ekki sannar, þótt þær séu endurteknar og settar í nýtt og nýtt samhengi.