3.6.2006 23:52

Laugardagur, 03. 06. 06.

Alþingi var slitið um klukkan 16.30 í dag og í Morgunblaðinu segir, að 89 mál hafi verið afgreidd síðasta sólarhring þingstarfanna. Öll þau mál, sem ég taldi brýnt, að næðu fram að ganga og ég flutti, urðu að lögum - þar nefni ég nýskipan lögreglumála, lög um landhelgisgæsluna og lög sem heimila SÍBS og DAS að greiða happdrættisvinninga sína í peningum. Happdrættin hafa um langt árabil óskað eftir heimild af þessu tagi en það hefur vafist fyrir mönnum, hvernig ætti að standa að heinni. Á þessu fannst farsæl lausn í frumvarpinu, sem ég flutti og alþingi samþykkti samhljóða.

Auk þessara laga nefni ég lög um vegabréf og lög um að flytja þjóðskrána frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins en þetta tvennt er nátengt, því að Þjóðskrá verður lögbundinn útgefandi veganbréfanna.

Ragna Árnadóttir og samstarfsfólk hennar á lagasviði ráðuneytisins hefur staðið sig vel í samskiptum við allsherjarnefnd alþingis, sem starfar undir öruggri formennsku Bjarna Benediktssonar - en eins og áður tókst honum að ná samstöðu innan nefndarinnar um meginþorra mála á vettvangi hennar - og þau voru ekki fá.

Lögum samkvæmt ber að efna til svonefndra eldhúsdagsumræðna, sem er sjónvarpað og útvarpað, áður en þingi er slitið á vorin. Þessar umræður voru síðdegis í dag og er ég ekki frá því, að meira hafi verið sagt frá þeim í fréttum en þegar til þeirra er efnt að kvöldlagi. Kannski er þetta upphaf að nýjum sið.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, talaði svo lofsamlega um EES-samninginn, að ætla mátti, að hún hefði stutt aðild Íslands að honum, raunar hefur hún látið opinberlega eins og svo hafi verið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra minnti á, að Ingibjörg Sólrún hefði ekki stutt samninginn á sínum tíma. Það er álíka mikil blekking eins og að láta sem svo, að það sé engum öðrum en Jóni Baldvin Hannibalssyni og jafnaðarmönnum að þakka, að Ísland sé í EES. Án einarðrar afstöðu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og okkar sjálfstæðismanna hefði samningurinn aldrei verið samþykktur á alþingi. Ég hef sagt það áður og endurtek það enn, að við náðum samningnum í gegnum alþingi, þrátt fyrir Jón Baldvin og uppákomur vegna yfirlýsinga hans.

Fórum austur í Fljótshlíð og ég notaði þurrkinn og kvöldkyrrðina til að slá fyrsta slátt í kringum bæinn á þessu sumri.