26.5.2006 23:10

Föstudagur, 26. 05. 06.

Kosningabaráttunni lauk í kvöld með því að efstu menn listanna í Reykjavík sátu fyrir svörum í Kastljósi. Eftir allar skoðanakannanirnar og talið í kringum þær, var ég að velta fyrir mér, hvort ég ætti að sitja áfram fyrir framan sjónvarpið, þegar helst virtist sem umræðurnar ættu að snúast um kannanirnar - það er engu líkara stundum en kosningabaráttan sé um það, hver komi best út í könnunum og síðan eru úrslitin metin eftir því, hvernig atkvæði falla miðað við kannanir. Ég held, að hvergi annars staðar séu stjórnmálaumræður einfaldaðar á þennan hátt í fjölmiðlum. Alls staðar leitast fréttamenn við að leggja eitthvað annað til grundvallar en kannanir, þegar þeir ræða við stjórnmálamenn.

Þátturinn tók sem betur fer aðra stefnu og rætt var um málefni. Enn og aftur kom í ljós, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur mesta reynslu og þekkingu á málefnum Reykjavíkurborgar af þessum frambjóðendum og veit einnig um hvað hann er að tala, þegar hann ræðir einstök málefni. Megi honum og D-listanum ganga allt í haginn!