6.5.2006 22:03

Laugardagur, 06. 05. 06.

Vorum klukkan 14.00 í Björkinni á Hvolsvelli með fjölda annarra, sem tóku þátt í að opna kosningaskrifstofu sjálfstæðismanna í Rangárþingi eystra, en mér var boðið þangað sem heiðursgesti og sagði ég nokkur orð af því tilefni - lét ég þess getið, hve vel hefði verið tekið á móti okkur Rut í Fljótshlíðinni og hve spennandi hlyti að vera að sitja í sveitarstjórn í sveitarfélagi, sem væri að breytast jafnört og Rangárþing eystra - ef áfram yrði jafnvel stjórnað á næsta kjörtímabili með þátttöku Sjálfstæðisflokksins og gert hefði verið á því, sem nú væri að líða, þyrfti engu að kvíða.

Á þeim fjórum árum, sem við höfum átt okkar annað heimili hér fyrir austan, hafa breytingar orðið mjög örar og nú má segja, að nýjum húsum fjölgi vikulega.

Ég nefndi einnig, hve mikilvægt væri að leggja rækt við menningarlegan arf til að styrkja okkur í samtímanum og hann væri vissulega ríkulegur í Rangárþingi - hvort heldur litið væri til Njálssögu eða Fjölnismanna, en á næstu ári yrðu 200 ár liðin frá fæðingu sr. Tómasar Sæmundssonar og færi vel á því að minnast hans og Fjölnismanna með vísan til prestsþjónustu sr. Tómasar á Breiðabólstað en þaðan ritstýrði hann Fjölni.

Kosningahátiðin var ánægjuleg og veitingar glæsilegar. Frambjóðendur á lista sjálfstæðismanna eru nýir og í forustu er Unnur Brá Konráðsdóttir lögfræðingur, sem flutti góða ræðu í Björkinni eins og þau sr. Halldór Gunnarsson í Holti og Drífa Hjartardóttir, alþingismaður. Þá ar kynnt glæsilegt kosninga- og stefnublað sjálfstæðismanna, sem frambjóðendur ætla að bera í hvert hús.

Veðurblíðan var svo mikil í morgun, að við gátum borðað morgunverðinn utan dyra í sólinni.