20.4.2006 22:53

Fimmtudagur, 20. 04. 06.

Gleðilegt sumar!

Rut heyrði í lóu í Öskjuhlíðinni í gær og í dag sáum við lóubreiðu á túni í Fljótshlíðinni auk þess voru tjaldshjónin komin í hlað. Mér var sagt, að önnur gimbrin mín væri með lambi, svo að nú hef ég hag af því, ef þingi lýkur fyrir sauðburð og get sett mig í spor þeirra, sem þess óska. Líklega er það þó borin von, þar sem málþóf er vegna RÚV og svo krefst Ögmundur Jónasson, vinstri/grænum þess, að öllum málum verði ýtt til hliðar og tekið til við að ræða um efnahagsmálin.

Ég sé að Berlingske Tidende heldur áfram að ræða um íslensk efnahagsmál og ræðir í dag um, að sumir Íslendingar telji evruaðild allra meina bót, þar á meðal forsætisráðherrann og nú sé betra tækifæri en nokkru sinni til að ræða um aðild að evrulandi, af því að Davíð Oddsson hafi eftir margra ára stjórnarforystu orðið seðlabankastjóri, en hann hafi sem flokksformaður og forsætisráðherra verið „arg modstander af EU og fælles valuta.“

Blaðið telur þó líklegt að allt tal um evruaðild sé draumsýn. Rætt er við Carsten Valgreen, aðalhagfræðing Danske Bank, sem segir alls ekki í hendi að taka upp evru, það krefjist aðildar að Evrópusambandinu og langs aðdraganda, þar sem umsækjandinn sanni, að hann geti  tryggt stöðugleika.

Undarlegt er, að enginn hafi skýrt rækilega út fyrir okkur, hvers vegna Danske Bank hefur svona mikinn áhuga á íslensku efnahagslífi og er svona ákafur við að gefa álit á þróuninni hér. Skyldi hann vera með smásjána á fleiri ríkjum? Er hann að búa sig undir viðskipti hér á landi? Eða hefur hann áhuga á hlutabréfum í íslenskum banka, eftir að þau hafa lækkað? Stendur honum stuggur af vaxandi ítökum íslenskra banka í Danmörku? Hefur spurningum af þessum toga verið svarað einhvers staðar?