9.3.2006 21:02

Fimmtudagur, 09. 03. 06.

Í dag var ritað undir samning við Portus, sem gerir kleift að ráðast í smíði tónlistar og ráðstefnuhúss við austurhöfnina í Reykjavík og á það að verða tilbúið árið 2009.

Í færslu hér á síðunni segir frá því, að ég heimsótti Sinfóníuhljómsveit Íslands 21. október 1995 og þar er skráð: „Hvorki ríki né Reykjavíkurborg hafa viðurkennt, að framkvæmdin (við tónlistarhús) væri á þeirra verksviði. Ég vil beita mér fyrir því, að hlutur ríkisvaldsins verði skilgreindur og viðurkenndur jafnframt því, sem komist verði að niðurstöðu um það, hvernig hús er nauðsynlegt að byggja, hvar og hverjir standi að því. Slík vinna tekur nokkurn tíma, en sé skipulega að henni staðið ætti henni að ljúka, svo að málið væri hæft til ákvörðunar á kjörtímabilinu.“

Í febrúar 1996 skipaði ég nefnd til að huga að þátttöku ríkisins í gerð tónlistarhúss og var Stefán P. Eggertsson formaður hennra. Hún skilaði áliti 10. júní 1997 og ákvað ríkisstjórnin að halda málinu áfram. 5. janúar 1999 samþykkti ríkisstjórnin eftirfarandi tillögu mína:

„Menntamálaráðuneyti og samgönguráðuneyti verði heimilað að leita samninga við Reykjavíkurborg um að ríki og borg beiti sér fyrir byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar á grundvelli greinargerðar, er fylgir minnisblaði þessu [þar er vísað til álitsgerðar, sem unnin er af VSÓ-ráðgjöf undir forystu stýrihóps]. Húsið verði reist í miðborginni en nánari staðsetning og afmörkun lóðar verði ákveðin síðar.“

Þar með gekk fyrirheit mitt til starfsmanna sinfóníunnar eftir - hlutur ríkisvaldsins var skilgreindur og ákveðinn á kjörtímabilinu. Síðan hefur verið unnið að málinu í samvinnu ríkis og borgar og í dag var framkvæmdin færð í hendur Portus - einkafyrirtækis undir forystu Landsbanka Íslands. 

Fyrir tilviljun heyrði ég í dag viðtal Þorfinns Ómarssonar á NFS við Stefán Jón Hafstein, formann menningarmálaráðs Reykjavíkurborgar, þar sem hann virtist vera að hreykja sér af því, að tónlistarhúsið væri að rísa og við sjálfstæðismenn værum að reyna að eigna okkur eitthvað í því! Mér þótti þetta dæmigert montviðtal í R-lista dúr - ég veit ekki, hvað Stefán Jón Hafstein telur sér til tekna vegna tónlistarhússins, annað en að vera formaður menningarmálaráðs, þegar enn eitt skrefið er stigið á braut, sem aðrir mótuðu fyrir áratug.