28.2.2006 20:10

Þriðjudagur, 28. 02. 06.

Var klukkan 15.00 í Skógarhlíð, þar sem opnuð var aðstaða fyrir bíla- og búnaðarþjónustu ríkislögreglustjóra. Þá rituðu þeir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, undir samstarfsamning lögreglu og gæslu, sem ég staðfesti.

Á leiðinni heim heyrði ég í bílnum að Illugi Jökulsson futti vikulegan pistil á NFS og var að býsnast yfir því, að stofna ætti greiningardeild hjá lögreglunni. Hann taldi enga þörf á því, þar sem ógnin af hryðjuverkum væri bara ímyndun.

Illugi gaf sér, að ég hefði sagt, að greiningardeild væri nauðsynleg vegna hryðjuverkaógnar. Ég lagði hins vegar áherslu á skipulagða og alþjóðlega glæpastarfsemi. Skyldi Illugi einnig telja, að hún sé ekki að skjóta rótum hér á landi?

Staðreynd er, að sömu aðferðir lögreglu og beitt er gegn fíkniefnasölum gefast vel gagnvart skipulagðri og alþjóðlegri glæpastarfsemi og þær nýtast einnig gegn hryðjuverkum. Með því að leggja áherslu á greiningarþáttinn í starfi lögreglunnar er áréttað að hún skuli leggja mat á hættu á afbrotum en ekki aðeins rannsaka afbrot, sem hafa verið framin. Áhættugreining er lykilþáttur í árangursríku starfi lögreglu, hvað sem líður hryðjuverkaógn.

Ég var undrandi á því, að Illugi skyldi ekki hafa kynnt sér rökin að baki greiningardeildinni betur, úr því að hann kaus að flytja sérstakan pistil um málið. Illugi getur verið þeirrar skoðunar, að Íslendingum eða öðrum stafi engin ógn af hryðjuverkum - það eru einfaldlega engin rök gegn því, að lögð sé áhersla á greiningarþáttinn í störfum lögreglunnar.