24.1.2006 20:53

Þriðjudagur, 24. 01. 06.

Tilkynnt var um sigur Íhaldsflokksins í Kanada í þingkosningum þar í gær. 12 ára stjórn Frjálslynda flokksins er lokið. Flokkurinn hefur stjórnað Kanada með stuttum hléum síðan í fyrri heimsstyrjöldinni. Allt stjórnkerfið er sagt svo gegnsýrt af stjórnarháttum hans og viðhorfum, að ótrúlegan styrk þurfi hjá íhaldsmönnum, ef þeim á að takast að setja sinn stimpil á stjórnarfarið.

Framtíðin segir okkur, hvernig til tekst hjá Stephen Harper, leiðtoga íhaldsmanna að stjórna Kanada. Honum tókst að leiða flokk sinn til sigurs, þótt hann styðji innrásina í Írak, sé andvígur Kyótó-samkomulaginu og kallaður handbendi George W. Bush Bandaríkjaforseta.

Hvaða skoðun sem menn hafa á innrásinni í Írak verða þeir að í horfast í augum við þá staðreynd, að George W. Bush, Tony Blair í Bretlandi, John Howard í Ástralíu og Anders Fogh Rasmussen í Danmörku héldu allir forystu meðal þjóða sinna, þótt hart væri sótt að þeim í þingkosningum vegna stuðnings við innrásina í Írak. Nú bætist Stephen Harper í hóp þeirra leiðtoga, sem hljóta traust þjóðar sinnar, þrátt fyrir háværar ganrýnisraddir um afstöðu hans til innrásarinnar í Írak.