2.1.2006 20:35

Mánudagur, 02. 01. 06.

Við upphaf árs lagði ég á ráðin um meginverkefni næstu mánaða á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Ég vék að því hér í dagbókinni á gamlársdag, hve fráleitt væri að segja Evrópusambandið (ESB) bannorð í íslenskum stjórnmálum, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði í formannspistli sínum í Morgunblaðinu í tilefni áramótanna. Kannski á að skilja orð hennar á þann veg, að enginn haldi þeirri skoðun fram á stjórnmálavettvangi, að Ísland skuli ganga í ESB? Hvers vegna gerir hún aðild ekki að stefnu sinni?

Skömmu fyrir áramót sýndi skoðanakönnun í Finnlandi, að meirihluti Finna hefði snúist gegn aðild að ESB en Finnar hafa til þessa verið eindregnustu stuðningsmenn ESB-aðildar af Norðurlandaþjóðunum.

Um áramótin gerði breska ríkisútvarpið BBC könnun meðal Breta á því, hvern þeir teldu valdamesta mann Bretlands. Flestir eða 22% töldu það vera Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Rupert Murdoch fjölmiðlakóngur var í öðru sæti með 15% og breska þingið í því þriðja með 14%. Tony Blair lenti í sjöunda sæti með 7% og Gordon Brown fjármálaráðherra í níunda með 4% - einu stjórnmálamennirnir, sem komust á blað meðal hinna 10 efstu.

Nick Robinson, stjórmálaritstjóri BBC, sagði, að með vali sínu á Barroso kynnu breskir kjósendur að vera að láta í ljós þá skoðun, að Evrópusambandið hefði of mikil völd.

Umræður um kjaramál halda áfram og nú snúast þær um stjarnfræðilegar tölur í tengslum við FL Group. Þeir voru kallaðir í Kastljós til að ræða málið Jafet Ólafsson verðbréfasali og Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar. Spyrja má eftir þáttinn: Hverjum dettur í hug að kalla Ágúst Ólaf á vettvang, ef ætlunin er að halda umræðum innan skynsamlegra marka?