16.12.2005 20:50

Föstudagur, 16. 12. 05.

Var rétt í þessu að ljúka við að horfa á aðalfréttatíma BBC World Service en þar voru fjögur höfuðefni: leiðtogafundur ESB í Brussel, Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og vinsælasti ráðherra Bush-stjórnarinnar, WTO-fundurinn árangurslausi í Hong Kong og um 5 mínútna kynning á íslensku kvikmyndinni Gargandi snilld eða Screaming Masterpiece, sem þulan sagði hafa verið frumsýnda í London í dag. Var farið lofsamlegum orðum um tónlistina, sem þar var kynnt.

Klukkan 09.00 var ég í sal Lögreglufélags Reykjavíkur og tók þátt í því með félagsmönnum að fagna 70 ára afmæli félagsins. Flutti stutt ávarp og afhenti fjórum lögreglumönnum viðurkenningu fyrir björgunarafrek þeirra 10. september sl. þegar báturinn Harpa strandaði.

Þegar ég kom af ríkisstjórnarfundi ræddi Helgi Seljan við mig fyrir hönd NFS, það er sjónvarpsfréttastöðvar Baugsveldisins, sem kemur í stað Talstöðvarinnar. Ég hef ekki búnað til að horfa á þessa stöð, nema þegar hún tengist Stöð 2. Stjórnmálamenn, sem fara þarna í þætti, hafa sagt mér, að þeir heyri aldrei neinn minnast á þá við sig. Þá þögn telja þeir til marks um lítið áhorf. Ég heyri stundum dagskrána í gegnum Talstöðina.