24.11.2005 21:48

Fimmtudagur, 24. 11. 05.

Önnur umræða um fjárlagafrumvarpið fer fram í dag og er henni ekki lokið, þegar þetta er skrifað. Ég hef bæði fylgst með henni í þingsalnum og einnig utan hans, en nú er hægt að hlusta á umræður á þingi, hvar sem maður hefur aðgang að tölvu og mjög víða í sjónvarpi. Er það mikil breyting frá því, að ég settist á þing árið 1991 og rætt var um, hvort verja ætti mörg hundruð milljónum króna, ef ég man rétt, í að setja á stofn sérstakt útvarp frá alþingi. Nú er í senn unnt að hlusta á og sjá allt, sem gerist í ræðustól alþingis, hvar sem maður er staddur við tölvu, þess vegna er þess gjarnan látið getið í ræðustólnum, að sá, sem þar stendur, vænti þess, að á sig sé hlustað af öðrum þingmönnum en þeim, sem einmitt eru í þingsalnum þá stundina.

Í umræðum gerist það stundum, að ræðumaður taki smá rispu, þegar hann sér ráðherra eða þingmann birtast í salnum og beini orðum sínum sérstaklega til hans, þótt það falli ekki endilega að því, sem hann var að segja, þegar hann kom auga á þann, sem í salinn gekk. Hitt er þó algengara, að í ræðum stjórnarandstæðinga sé fundið að því, að þessi eða hinn ráðherrann sé ekki í þingsalnum eða þinghúsinu og oft gera menn hlé á ræðu sinni á meðan úr er bætt fyrir tilstilli forseta.

Í upphafi umræðnanna um fjárlögin kvörtuðu stjórnarandstæðingar undan því, að ráðherrar væru ekki nógu margir viðstaddir til að hlusta á umræður eða taka þátt í þeim. Pétur H. Blöndal vakti hins vegar máls á því, að í þessu tali um viðveru ráðherra fælist alltof mikil undirgefni við framkvæmdavaldið, ríkisstjórnin hefði lagt fram og kynnt frumvarp sitt, nú væri verið að ræða álit þingnefndar og skoðanir þingmanna á þessum tillögum ríkisstjórnarinnar og það gæti vel gerst, án þess að kallað væri á ráðherra.