22.11.2005 22:07

Þriðjudagur, 22. 11. 05

Var á vel sóttum fundi Heimdallar í kvöld og ræddi varnarmálin. Að lokinni stuttri framsöguræðu svaraði ég spurningum fundarmanna í um það bil eina klukkustund og bar þar margt á góma.

Ég lýsti þeirri skoðun, að mér þætti undarlegt, að þessa daga væri rætt um varnarmálin eins og eitthvað stórmerkilegt væri að gerast, því að í raun væru menn í sömu stöðu og verið hefði síðan kalda stríðinu lauk, það er að ræða samstarfið við Bandaríkjamenn með það í huga, að hér yrðu sýnilegar varnir í ljósi breyttra aðstæðna og  þess, að við værum tilbúnir til að taka meiri kostnað vegna reksturs Keflavíkurflugvallar á okkar herðar.

Ég gæti ekki tekið undir með þeim, sem teldu, að um einhver þáttaskil væri að ræða í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna, vandinn væri sá, að vegna mismunandi sjónarmiða ólíkra ráðuneyta og stofnana í Washington gætu menn ekki leitt málið til lykta - ég teldi óbreytt ástand hins vegar ekki til vandræða fyrir okkur nema vegna þess, að óvissa ríkti um nokkra þætti í starfseminni á Keflavíkurflugvelli og væri brýnt að binda enda á hana.

 Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir meðal annars:

„Morgunblaðið hefur marglýst þeirri skoðun sinni, að við Íslendingar eigum að stórauka pólitísk samskipti okkar við Þjóðverja. Það er augljóst, að fjarlægðin á milli okkar og Bandaríkjamanna er að aukast. Við eigum jafnvel í vissum erfiðleikum með að fá Bandaríkjamenn til þess að standa við skuldbindingar sínar við okkur í öryggismálum.“

Ég er ekki andvígur góðum samskiptum við Þjóðverja nema síður sé en að láta eins og þau geti á einhvern hátt komið í stað samstarfs við Bandaríkin í varnarmálum er fráleitt. Hvernig er unnt að rökstyðja það, að fjarlægð okkar og Bandaríkjamanna sé að aukast? Fjarlægðin hefur aldrei verið minni, hvað sem líður varnarsamstarfinu. Bandarísk fjárfesting hefur aldrei verið meiri hér eða umsvif í efnahagslífinu auk þess sem bandarískum ferðamönnum hefur fjölgað, svo að ekki sé minnst á bandarísk menningaráhrif - Morgunblaðsmenn þurfa ekki annað en lesa kvikmyndaauglýsingar, sjónvarpsdagskrá, kvikmyndaumsagnir og slúðurdálka eigin blaðs til að sjá, að þetta með aukna fjarlægð er fásinna. Bandaríkjamenn vilja halda áfram varnarsamsamstarfinu við okkur.  Sú vitleysa var gerð fyrir um það bil tíu árum að setja tímamörk í fyrirkomulagsbókanir um umsvifin á Keflavíkurflugvelli í stað þess að halda samstarfinu áfram á sama hátt og áður, að taka sameiginlega mið af breyttum aðstæðum í öryggismálum og laga sig að þeim - við höfum oft staðið frammi fyrir því áður að þurfa að rökræða við Bandaríkjamenn um varnarmál og skipan mála á Keflavíkurflugvelli.