29.9.2005 20:57

Fimmtudagur, 29. 09. 05.

Var við þyrluæfingar sérsveitarinnar í Hvalfirði síðdegis, en gæsluþyrlan Sif var þar að þjálfa nýliða sveitarinnar í sigi og öðru er varðar notkun þyrlu við þær aðstæður, sem kunna að kalla á afskipti sérsveitarmanna.

Tveir menn láta þess getið í blöðum í dag, að þeir séu nýkomnir til landsins frá útlöndum og verður það þeim tilefni til að segja álit sitt á forsíðu DV síðastliðinn mánudag, 26. september, þegar vikið var að einkamálum Styrmis Gunnarssonar og Jónínu Benediktsdóttur.

Annar þessara manna er Jóhannes Jónsson eigandi Baugsmiðlanna, þar á meðal DV, hann segir í smágrein í Fréttablaðinu í dag: „Við komu mína til landsins á þriðjudaginn sá ég forsíðufrétt DV 26. september. Mér finnst hún vera langt utan við það sem réttlætanlegt er. Um leið og ég lýsi sárum vonbrigðum mínum með „fréttina“ þá vona ég að hér hafi verið um mistök að ræða.“

Hinn er Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV. Hann segist einnig hafa komið til landsins eftir að fréttin birtist á forsíðu blaðs hans 26. september. Hann segir í DV í dag, að fréttin 26. september varði „auðvitað“ Baugsmálið - auk þess „þurfi þjóðin DV“ til að upplýsa um einkamál á þann veg, sem gert var á forsíðu þess 26. september.

Jónas tekur af skarið um, að forsíðufréttin 26. september hafi ekki verið mistök. Ritstjórinn telur, að með fréttinni hafi DV verið að sinna mikilvægu hlutverki með því að upplýsa um það, sem „haldið er leyndu, af því að það er ekki til siðs að fjalla um einkamál.“

Skyldi eigandi Baugs fela forstjóra Haga að taka upp viðræður við ritstjórn DV til að ræða um viðskipti með auglýsingar í því skyni að koma í veg fyrir fleiri slík „mistök“ í DV? Slík fyrirmæli voru gefin forstjóra Haga til að hafa áhrif á ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins.