27.9.2005 16:38

Þriðjudagur, 27. 09. 05.

Ríkisstjórnin kom saman til fundar í morgun klukkan 09.30 og var terta á borðum í tilefni af því, að þetta var síðasti ríkisstjórnarfundur Davíðs Oddssonar. Mörg mál voru til umræðu eins og venja er, þegar dregur að því að alþingi komi saman til fundar.

Klukkan 14.00 var fundur ríkisráðinu á Bessastöðum. Hann var tvískiptur - á fyrri hluta hans báru ráðherrar upp tillögur til forseta Íslands og Davíð var kvaddur. Eftir að hann var farinn af fundi rúmlega klukkan 15 kom Einar K. Guðfinnsson alþingismaður á fundinn. Gengið var formlega frá skipan hans í embætti sjávarútvegsráðherra, Geir H. Haarde varð utanríkisráðherra og Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra.

Þegar Davíð gekk út af ríkisstjórnarfundi í morgun sátu fréttamenn fyrir honum og gagnrýndi hann harðlega framgöngu Baugsmiðlanna í Baugsmálinu. Davíð sagði orðrétt: „Og auðvitað þegar maður hefur séð hvernig Baugsmiðlarnir eru misnotaðir með hætti, sem maður hefur ekki séð á Vesturlöndum og jafnvel ekki annars staðar heldur, þá hljóta menn að velta því fyrir sér hvort önnur fyrirtæki, sem sömu aðilar eiga, séu misnotuð með sama hætti."

Blaðið stendur á hliðarlínunni og segir í forystugrein í dag, að trúverðugleiki 365 miðla (það er Baugsmiðlanna) í Baugsmálinu sé að engu orðið: „Fingraför eigendanna sjást langar leiðir. Að vera eigandi án ábyrgðar gengur einfaldlega ekki upp þegar fjölmiðlar eru annars vegar. Að tala um ábyrgð í sömu setningu og minnst er á nafn Gunnars Smára Egilssonar upplýsingafulltrúa Baugs er eins og hvert annað grín. Það er því rétt að halda nafni hans fyrir utan umræðuna.“

Skýring: Gunnar Smári er forstjóri 365 miðla en Blaðið segir í þessum orðum, að hann sé þar sem upplýsingafulltrúi Baugs og ábyrgðin sé hjá eigendum Baugs.

Blaðið telur ólíklegt, að Blaðamannafélag Íslands taki á þeim hnekki, sem íslensk blaðamennska hefur beðið, enda félagið byggt upp af starfsmönnum Baugs. Síðan segir Blaðið: „Það er hins vegar full ástæða fyrir Alþingi Íslendinga að taka upp að nýju umræðu um fjölmiðlalög. Það einfaldlega gengur ekki lengur að menn fái óáreittir að nauðga rit- og prentfrelsi í þágu eigenda sinna. Baugsmenn og starfsmenn þeirra hafa orðið sér til ævarandi skammar.“