23.9.2005 22:19

Föstudagur, 23. 09. 05.

Ríkisstjórnin kom saman klukkan 09.30 og sat Davíð Oddsson í forsæti í fjarveru Halldórs Ásgrímssonar, sem er í fríi. Rætt um mál, sem Davíð vill afgreiða á næsta ríkisstjórnarfundi, 27. september, sem verður hans síðasti, en sama dag verður ríkisráðsfundur og hádegisverður á Bessastöðum.

Klukkan 10.00 var ég kominn á hótel Sögu til að flytja ræðu á fundi sýslumannafélagsins. Ræðan var ekki skrifuð en í henni fór ég yfir helstu mál á dagskrá ráðuneytisins, sem snerta sýslumenn auk þess að ræða nauðsyn þess, að ráðuneytið og embætti á þess vegum svöruðu opinberlega gagnrýni í þeirra garð. Þannig væri ljóst, að viðbrögð starfsmanna embættis ríkislögreglustjóra hefðu skýrt stöðu Baugsmálsins fyrir almenningi fyrir utan að vekja reiði hinna ákærðu.

Fylgdist með því í Íslandi í dag á Stöð 2, hvernig Ingibjörg Sólrún Gísladóttir reyndi að tala sig frá dylgjum hennar um lögregluna. Þótt hún tali endalaust, er ljóst, að hún vék á ósæmilegan hátt að lögreglunni í útvarpsfréttum miðvikudaginn 21. september. Sá einnig Hallgrím Helgason rithöfund í Kastljósi, en hann er eins og Ingibjörg Sólrún haldinn þeirri trú, að eitt stórt póltiískt samsæri sé að baki andrúmslofti og lögreglurannsókninni á Baugi og þótt hann viðurkenni, að í raun hafi hann ekkert fyrir sér annað en eigið hugboð, lætur hann ekki af ásökunum sínum. Ef einhverjir eru sífellt að reyna að búa til andrúmsloft í kringum Baugsmálið og tengja það stjórnmálum eru það þeir, sem ræða um það eins og Ingibjörg Sólrún og Hallgrímur.