17.9.2005 22:59

Laugardagur, 17. 09. 05.

Fór rúmlega 07.00 af stað í göngur með nágrönnum mínum í Fljótshlíðinni. Veðrið var eins og best verður á kosið. Þetta var í fjórða sinn, sem ég fer í göngurnar en núna var ég í fyrsta sinn á eigin hesti. Gekk það vel miðað við, að hann hefur lítið sem ekkert verið notaður í sumar fyrir utan að fara með í þriggja daga göngur um síðustu helgi. Hann hefur greinilega ekki verið taminn með langferðir af þessum toga í huga. Ég var komin heim að nýju rúmlega 18.00.

Sé, að fréttir snúast enn um yfirlýsingu forsætisráðherra um framboð Íslands til setu í öryggisráðinu og nú ganga forystumenn Framsóknarflokksins fram fyrir skjöldu og telja óvissu ríkja um málið. Þegar ríkisstjórnin ákvað framboðið 1998, var að sjálfsögðu ljóst, að það yrði kostnaðarsamt. Síðan hefur efnahagur þjóðarinnar batnað og enn traustari grunnur verið lagður að hagvexti en þá var í vændum.

Þegar ég íhuga þetta mál, finnst mér í raun meiri áhætta felast í því, að hverfa frá ákvörðuninni frá 1998 en halda fast í hana. Með því að snúa við blaðinu væri gefin yfirlýsing um, að Ísland treysti sér ekki til annars en standa á hliðarlínunni í alþjóðastjórnmálasamstarfi. Væri skynsamlegt fyrir sjórnvöld að gefa slíka yfirlýsingu á sama tíma og lögð er áhersla á útrás á öllum sviðum?  

Í ljósi ákvörðunarinnar 1998 og ræðu Geirs H. Haarde sem starfandi utanríkisráðherra á allsherjarþinginu 2004, sé ég raunar ekki, hvernig forsætisráðherra Íslands  hefði getað sagt annað um framboðið á 60 ára afmælisfundi Sameinuðu þjóðanna en Halldór Ásgrímsson gerði sl. fimmtudag.