4.9.2005 22:26

Sunnudagur, 04. 09. 05.

Var við sveitastörf í Fljótshlíðinni fram eftir degi, hugaði að girðingum og góðir nágrannar aðstoðuðu mig við að járna Breka, svo að ég gæti farið á honum í leitirnar.

Hörmungarnar í Bandaríkjunum vegna flóðanna í New Orleans eru sorglegar og sýna, að án samræmds björgunarkerfis, æfðra áætlana og samhæfingarmiðstöðva er voðinn vís á hættustundu. Borgir, ríki og alríki í Bandaríkjunum búa hver við sitt kerfi og innan þessara eininga eru síðan stofnanir, sem þarf að virkja eftir skýrum og einföldum boðleiðum auk þess sem fjarskiptakerfi þarf að þola ótrúlega mikið álag.

Hér á landi hefur verið lögð á það áhersla undanfarin misseri að styrkja samhæfinguna í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð auk þess sem tetra-fjarskiptakerfið nær sífellt yfir stærra svæði. Það var eina fjarskiptakerfið, sem hélt velli hjá lögreglu og björgunarliði í London 7. júlí. Sagt er, að ekki þurfi nema 5% notenda GSM-kerfis að hringja á sama tíma, til að það hrynji. Hvort þetta er rétt veit ég ekki.

Því ber að fagna, að Bandaríkjamenn þiggja aðstoð frá öðrum löndum en fara ekki að fordæmi Indverja, sem vildu ekki neina aðstoð annarra eftir flóðbylgjuna miklu við Indlandshaf.