2.9.2005 2:23

Föstudagur, 02. 09. 05.

Flutti klukkan 17.00 ræðu á Grandhótel við setningu norræns þings kvennasamtaka um kynbundið ofbeldi að frumkvæði Stígamóta.

Var klukkan 20.00 í Þjóðmenningarhúsinu og hlýddi á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur, Ravel á Þingvöllum. Tónlistin var mjög vel flutt við mikla hrifningu eins og skemmtilegt erindi Péturs Gunnarssonar rithöfundar um Maurice Ravel, en eftir það leituðu á hugann efasemdir um, að Ravel hefði nokkru sinni komið til Íslands, þrátt fyrir póststimpil á kortinu.

Það fer einstaklega vel á því að efna til slíkra tónleika í Þjóðmenningarhúsinu og Pétur Gunnarsson tengdi komu Ravels til Íslands vel við byggingu hússins. Í því felst  þröngsýni að andmæla því, að Safnahúsinu hafi verið breytt í Þjóðmenningarhús með því notagildi, sem það nú hefur. Mér þótti ánægjulegt að vinna að þessari breytingu á nýtingu hússins. Þjóðmenningarhúsið hefur vissulega staðið af sér ónot og hrakyrði vegna breytinganna.