25.8.2004 0:00

Miðvikudagur, 25. 08. 04.

Við hófum daginn á því að aka upp á 600 metra hátt fjall, sem gnæfir yfir Nova Gorica, þar sem er að finna kirkju og klaustur Franzisku-munka, sem heitir Seva Gora, var mikil ró og helgi yfir þeim stað.

 

Síðan héldum við í austurátt yfir fjöll og firnindi í miðri Slóveníu, eru fjalladalir þröngir og brekkur víða brattar, þegar ekið er norðan slétturnar, þar sem stærstur hluti Slóvena býr, en um helmingur lands þeirra er skógi vaxið og stór hluti auk þess fjallahryggir og tindar.

 

Síðla dags komum við í miðaldaborgina Skofja Loka en þaðan lögðum við sunnudaginn 22. ágúst upp í ferð okkar inn í Júlíönsku alpana. Skemmtilegum hring hafði verið loka. Við fórum í upplýsingamiðstöðina og spurðum um gististaði. Stúlkan hringdi til að kanna fyrir okkur bændagistingu en ekki var neina að fá, að minnsta kosti ekki fyrir eina nótt.

 

Við héldum því áfram til borgarinnar Kranj, sem er aðeins 7 km frá Brnik-flugvelli, 28 km frá Ljubljana og 29 km frá Bled.  Í Kranj hafði upplýsingamiðstöðinni verið lokað, svo að við ákváðum að fara á aðal umferðartorgið og kanna, hvort ekki væri hótel þar. Svo reyndist vera og við gátum valið milli nýuppgerðs herbergis eða herbergis í stíl kommúnistatímans – á einni upplýsingamiðstöðinni hafði okkur vinsamlega verið bent á, að hótel í þeim stíl væru ekkert skemmtileg! Þarna fengum við tækifæri til að bera þetta saman innan sama hótelsins. Við völdum nýuppgerða herbergið, þótt sími hefði ekki enn verið tengdur í það. Matsalurinn var hins vegar svo sannarlega í gamla stílnum.

 

Í upplýsingablaði hótelsins, Hotel Creina, segir, að Edvard Ravnikar, prófessor í arkitektúr, hafi teiknað það árið 1970. Hótelið sé eitt af hans best þekktu verkum og litið sé á það sem listsögulegt minnismerki. Ef hótelið á að lifa í nútímanum og þjóna gestum þarf hind vegar að endurnýja herbergi eins og verið er að gera.

 

Reynsla okkar af því að ferðast um Slóveníu og gista á meðalgóðum hótelum hefur verið ákaflega góð, alls staðar er vinsamleg þjónusta og allt er nýtt og tandurhreint.  Hvarvetna hittum við fólk, sem talar ensku, bæði á hótelum og veitingastöðum, en þar eru matseðlar yfirleitt einnig á ensku.

 

Af þessari skjótu ferð um landið er auðvelt að draga þá ályktun, að á undraskömmum tíma hafi innviðir þess, stjórnmál, mannvirki og þjónusta verið endurnýjuð og færð í nútímalegt og lýðræðislegt horf.