21.8.2004 0:00

Laugardagur, 21. 08. 04

 

Rut fór á æfingu með Skálholts-kvartettinum í ráðhúsi Ljubljana klukkan 10.00 en þau Svava Bernharðsdóttir, víóluleikari, sem býr hér í Ljubljana, Sigurður Halldórsson, sellóleikari frá Reykjavík, og Jaap Schröder, fiðluleikari frá Hollandi, eru í kvartettinum með henni.

 

Það var svalara um morguninn en kvöldið áður – ég ætlaði að aka Rut á æfinguna en við komumst að því, að hjarta borgarinnar er lokað fyrir almennri bílaumferð, þannig að best var að geyma bílinn við hótelið.

 

Á meðan þau voru á æfingunni rölti ég um miðborgina og skoðaði markaðinn, þar sem mikið var um að vera í blíðvirðinu og unnt var að kaupa grænmeti, ávexti, blóm, fatnað og handverk. Ég stóð einnig dágóða stund fyrir framan dómkirkjuna og hlustaði á hressa tónlistarmenn flytja vel þekkt lög, sem höfðuðu vel til áheyrenda og safnaðist drjúgt í opinn fiðlukassann. Meðal þeirra, sem voru að hlusta, rakst ég á Sverri Vilhelmsson, ljósmyndara á Morgunblaðinu, og síðan hitti ég einnig Björn, bróður hans, í hópnum.

 

Eftir æfingu Skálholts-kvartettsins nutum við Rut góða veðursins í miðborginni fram eftir degi, en síðan dró ský fyrir sólu og steypiregn fylgdi að nýju þrumum og eldingum.

 

Tónleikarnir hófust í ráðhúsinu klukkan 21.00 og vegna rigningar fyrr um daginn hafði kólnað svo í lofti, að ákveðið var að hafa þá innan dyra en ekki í innigarði hússins, þau fluttu kvartett eftir Boccerini og tvo kvartetta eftir Haydn. Það var húsfyllir og var þeim mjög vel tekið. Á meðan á flutningnum stóð en hann var 60 mínútur málaði Zmago Modic, þekktur slóvenskur listmálari, af þeim olíumálverk og tókst honum undravel að vinna verk sitt.