15.7.2004 0:00

Fimmtudagur, 15. 07. 04

Var klukkan 20.00 leiðsögumaður í fimmtudagsgöngu á Þingvöllum. Um eitt hrundrað manns tóku þátt í göngunni í einstaklega góðu veðri - á leiðinni yfir Mosfellsheiði var smáskúr á undan okkur, sem gekk yfir, áður en gangan hófst.

Í upphafi kom hópurinn saman í fræðslumiðstöðinni á Hakinu, þar sem ég sagði frá henni. Síðan fórum við á Hakið, þar sem ég ræddi stærð þjóðgarðsins og staðhætti. Þá var gengið að Lögbergi, þar sem ég ræddi skráningu Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO, við áttum stutta viðdvöl við svæði norðan Öxarár, þar sem börn fá leiðsögn við fornleifagröft og lokaorð um stjórnarhætti Þingvalla flutti ég við þjóðargrafreitinn.

Þegar ég hafði lokið máli mínu bauð séra Kristján Valur Ingólfsson göngufólki að ganga til kirkju, þar sem farið var með kvöldbænir.

Lauk dagskránni rétt fyrir klukkan 22.00.