18.12.2002 0:00

Miðvikudagur 18. 12. 02

Klukkan 17.00 þennan dag kom borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna saman til reglulegs fundar í Ráðhúsinu. Þennan dag birtust fréttir um það í Fréttablaðinu og DV, að Ingibjörg Sólrún hefði í huga að skipa 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður í þingkosningunum 10. maí 2003.

Inn á fund okkar barst sú frétt, að Össur Skarphéðinsson hefði staðfest að fréttir Fréttablaðsins og DV væru réttar. Vildu blaðamenn greinilega helst fá mig út af fundinum, en við létum þá ekki trufla okkur og hitti ég þá lauslega eftir fundinn.

Arnar Páll Hauksson frá hljóðvarpi ríkisins tók við mig viðtal, þótt mér þætti það ekki skynsamlegt, því að á þeim tímapunkti var ekki neitt vitað um afstöðu Ingibjargar Sólrúnar sjálfrar, enda hafði ég þann fyrirvara.

Þegar ég gekk út úr Ráðhúsinu var fundi borgarmálaráðs R-listans lokið og var Ingibjörg Sólrún umkringd blaðamönnum. Heyrði ég á svörum hennar, að hún lét sem hún hefði ekki gert upp hug sinn til þingframboðs.

Í Kastljósi um kvöldið tók hún hins vegar af skarið og sagðist ætla að bjóða sig fram til þings.