12.2.1999 0:00

Föstudagur 12.2.1999

Klukkan 9.15 kom það í minn hlut að setja málþing um menningararfinn, auðlind í ferðaþjónustu. Var ánægjulegt að sjá, hve margir sóttu þetta þing. Klukkan 11.30 var efnt til blaðamannafundar til að kynna framkvæmdir við Þjóðminjasafn Íslands sem munu standa fram til 17. júní 2001. Má segja, að unnið sé að því að koma upp tveimur söfnum á þessum tíma, því að allir munir safnsins verða ljósmyndaðir og settir inn á netið samhliða því sem búið verður um safnið með nýjum hætti. Klukkan 17 fór ég í viðtal á rás 2 um stjórnmál, þá ræddi ég einnig við fréttamann um nýtt frumvarp til laga um Háskóla Íslands. Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins, hafði látið orð falla daginn áður, sem mátti skilja á þann veg, að ég hefði farið á bakvið þingflokk framsóknarmann við framlagningu frumvarpsins. Þetta er ekki rétt og leiðrétti ég það. Þá ræddi ég einnig við fréttamann um lyktir málaferlanna yfir Bill Clinton og birtist það í fréttaauka klukkan 13 laugardaginn 13. febrúar.