14.3.1999 0:00

Sunnudagur 14.3.1999

Landsfundinum lauk á sjötta tímanum. Í hádeginu var ég í þætti á Bylgjunni, sem Þór Jónsson fréttamaður stjórnaði, þar sem við Finnur Ingólfsson varaformaður Framsóknarflokksins fórum yfir stöðu mála með hliðsjón af helstu fréttum síðustu viku. Var ekki mikil samúð með samfylkingunni í máli okkar og taldi Þór það raunar aðeins formsatriði, að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur störfuðu áfram saman eftir kosningar með hliðsjón af áherslum í máli okkar. Ég sagði, að málið væri ekki svona einfalt, við ættum eftir að fara í kosningarnar, þær væru annað og meira en formsatriði. Í Morgunblaðinu þennan sunnudag er langt viðtal við Svavar Gestsson sendiherra, sem segist hafa lokað skoðanaverksmiðju (!) sinni. Ég sagði í þessum útvarpsþætti alltaf fagna því, þegar slíkum verksmiðjum sósíalista væri lokað, þær hefðu ekki framleitt merkilega vöru.