4.11.2021 9:50

Norðurlandaráð í NATO

Að slík ræða skuli nú í fyrsta sinn flutt í Norðurlandaráði af framkvæmdastjóra NATO markar söguleg þáttskil.

Sögulegur atburður gerðist í sögu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í gær (3. nóvember) þegar Jens Stolteberg, framkvæmdastjóri NATO, flutti ræðu í ráðinu þar sem þing þess var haldið í Kristjánsborgarhöll, sal danska þingsins. Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og var 73. þing þess nú í vikunni.

Stoltenberg minnti á að norrænu þjóðirnar hefðu á sínum tíma barist hver gegn annarri og hernaður hefði verið stundaður um aldir í allri Evrópu. Nú væru aðrir tímar frá því að síðari heimsstyrjöldinni lauk og alþjóðastofnanir á borð við NATO og Evrópusambandið komu til sögunnar. Þótt aðild norrænu ríkjanna að þessum alþjóðasamtökum sé ekki sú sama njóti Norðmenn og Íslendingar þess utan ESB að þar hafi tekist að skapa frið og vináttu milli Þjóðverja og Frakka. Svíar og Finnar, utan NATO, njóti þess að bandalagið skapi óryggisheild milli Evrópu og Norður-Ameríku.

211103b-003_rdax_775x440Jens Stoltenberg ávarpar Norðurlandaráð í Kristjánsborgarhöll. Bertel Haarder, fráfarandi forseti ráðsins, á forsetastóli.

Jonas Gahr Støre, nýorðinn forsætisráðherra Noregs, var á sínum tíma utanríkisráðherra í stjórn Stoltenbergs og minntist hann þess að þá hefði Gahr Støre boðað samráðherrum sínum að norrænu ríkin og ríki Evrópu nytu „djúps friðar“, þar gætu menn ekki einu sinni ímyndað sér stríð af því að þeir hefðu búið svo lengi við frið. Það væri gott en einnig áhættusamt vegna þess að menn gleymdu hryllingi hernaðarátaka og hve stríð væru hörmuleg.

Ríki yrðu að starfa saman, friður væri forsenda alls annars. Hlutverk norrænna þjóða væri að viðhalda þessum „djúpa friði“ og tryggja að hann ríkti í okkar heimshluta. Þetta væri markmið NATO. Í allri mannkynssögunni hefði ekkert bandalag náð sama árangri og NATO.

Nú á tímum reyndi enn á samstöðu innan bandalagsins og hæfni þess til að takast á við ný verkefni. Nefndi hann þar hernaðarumsvif Rússa og íhlutun þeirra í málefni nágrannaríkja. Hann harmaði að Rússar vildu ekki funda í NATO-Rússlands-ráðinu og þeir hefðu ákveðið að loka tveimur NATO-skrifstofum í Moskvu og kalla Rússa heim úr NATO-skrifstofu sinni í Brussel.

Þá fór hann einnig varnaðarorðum vegna vaxandi umnsvifa Kínverja á norðurslóðum, í Afríku og geimnum. Brátt yrðu Kínverjar mesta efnahagsveldi heims, þeir væru nú þegar mesta herflotaveldið og útgjöld þeirra til varnarmála væru önnur mestu í heiminum. Þeir festu mikið fé í nýjum, langdrægum kjarnorkuvopnum.

NATO liti ekki á Kínverja sem andstæðing. Þeir væru hins vegar vaxandi risaveldi sem hefði önnur gildi en við. Þar væri valdi beitt til að kúga almenna borgara, fylgjast með þeim og hafa stjórn á þeim. Lýðræði og mannréttindi væru einskis metin. Þjóðernislegir og trúarlegir minnihluta hópar sættu ofsóknum. Haft væri opinberlega í hótunum við Tævana og leitast við að trufla frjálsar siglingar eins og í Suður-Kínahafi.

Í lok ræðu sinnar áréttaði Jens Stoltenberg nauðsyn þess að ríki Evrópu og Norður-Ameríku stæðu saman til að tryggja áfram „djúpa friðinn“ og það yrði aðeins gert með því að standa vörð um NATO og samstöðu með nánum samstarfsþjóðum [les: Finnum og Svíum].

Þetta var ræða um nauðsyn samstöðu friðelskandi þjóða sem lýsa hollustu við sameiginleg gildi og vilja nokkuð á sig leggja til að verja þau. Að slík ræða skuli nú í fyrsta sinn flutt í Norðurlandaráði af framkvæmdastjóra NATO markar söguleg þáttskil. Hún áréttar aðeins hve fráleitt er fyrir þá sem segjast vilja standa vörð um norrænt samstarf að lýsa andstöðu við aðild Íslands að NATO eða vilja leggja stein í götu þess að hér séu gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til varðstöðu um samstarf ríkja Evrópu og Norður-Ameríku í varnar- og öryggismálum.