5.9.2019 11:55

Nöldur að fréttnæmum mótmælum

Í nágrenni Höfða voru fánastengur fyrirtækja nýttar til að láta í ljós skoðun á skoðunum varaforsetans sem hann hreyfði hvergi í samtölum við neinn, megi marka frásagnir fjölmiðla.

Nokkra undrun vekur þegar einstaklingar eða hópar nota komu erlendra manna til landsins í því skyni að vekja á sér athygli því að sjaldan verða uppákomur hér til annars en að skapa umræður á heimavelli.

Þetta kemur í hugann þegar litið er til sjö klukkustunda sem Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, dvaldist hér miðvikudaginn 4. september. Að minnsta kosti 11 samtök stóðu fyrir fámennri mótmælaaðgerð á Austurvelli í sama mund og varaforsetanum var ekið úr Höfða til Keflavíkurflugvallar.

Í fréttatíma ríkisútvarpsins klukkan 18.00 var gert jafnmikið með þennan fund á Austurvelli og viðburði sem snertu viðræður varaforsetans við fulltrúa íslenskra stjórnvalda. Bein útsending var frá Austurvelli eins og frá Höfða. Í aðdraganda komu varaforsetans lét fréttastofan þess yfirleitt getið að efnt yrði til mótmæla vegna hans og hverjir kæmu þar við sögu.

Fyrir þá sem ekki átta sig á að unnt er að mótmæla með fatavali eða armböndum var á það bent á Facebook að flokka mætti klæðnað íslensku forsetafrúarinnar undir mótmæli. Í nágrenni Höfða voru fánastengur fyrirtækja nýttar til að láta í ljós skoðun á skoðunum varaforsetans sem hann hreyfði hvergi í samtölum við neinn, megi marka frásagnir fjölmiðla.

Frá aldaöðli hafa menn mótmælt einu eða öðru með táknum og hátterni sem innvígðir skilja betur en þeir sem líta á málin frá almennum sjónarhóli. Þetta gerist enn eins og sannaðist við komu Pence.

2019-09-04T163451Z_1_LYNXNPEF831NE_RTROPTP_4_USA-ARCTIC-ICELAND-768x648Þarna leitast Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, við að endurvekja minningu um fund Mikhaíls Gorbatsjovs og Ronalds Reagans í Höfða í október 1986.

Í aðdraganda heimsóknarinnar skrifaði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, Pence opið bréf í Morgunblaðinu (31. ágúst). Tók hún Pence þar á beinið eins og hún gerði við Piu Kjærsgaard, þáv. forseta danska þingsins, þegar hún var gestur alþingis í fyrra í tilefni af 100 ára fullveldisafmælinu. Helga Vala laumaðist út af þingfundi á Þingvöllum þegar danski þingforsetinn flutti hátíðarræðu.

Í vetur kom hingað breskur blaðamaður og rithöfundur, Douglas Murray, í tilefni útgáfu íslenskrar þýðingar á bók hans, Dauði Evrópu. Þá sá Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar-stéttarfélags, tilefni til að skrifa forstjóra Hörpu bréf og krefjast þess að Murray fengi ekki að tala í einum sal hússins, Kaldalóni.

Að sjálfsögðu tíðkast í öðrum löndum að hópar eða einstaklingar fara í mótmælagírinn vegna komu útlendinga. Almennt þykir slíkt þó ekki fréttnæmt nema verulegur kraftur sé í mótmælendum. Hér í fréttaleysinu verður nöldur einkennilega oft að fréttnæmum mótmælum.