19.3.2020 10:12

Net-veiruvarnir verður að efla

Tölvuþrjótar þykjast oft vera fulltrúar heilbrigðisyfirvalda og senda frá sér blekkingarbréf í því skyni að kalla eftir viðkvæmum upplýsingum eða til að brjótast inn í tölvur viðkomandi.

Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, sagði á blaðamannafundi 18. mars:

„Mat okkar er að ógnin í netheimum sé mjög mikil. Ill öfl reyna að nýta sér ástandið. Ekki síst starfrænt. Þess vegna þurfum við öll að gæta okkar sérstaklega.“

Ráðherrann skýrði frá því að ríkisstjórnin, yfirvöld og símafyrirtækin hefðu gripið til mikilla varúðarráðstafana. Þá fylgdist Center for Cybersikkerhed, Miðstöð netöryggis, sem heyrir undir varnarmálaráðuneytið náið með gangi mála í samvinnu við lykilaðila á þessu sviði. Bent var á að vegna veirunnar myndi engin opinber stofnun í Danmörku biðja fólk um um notendanafn eða lykilorð í tölvubréfi eða sms. Netþjófar leggja einmitt áherslu á að afla sér slíkra upplýsinga.

Colourbox37628922cyberrange-1100x549Thomas Lund Sørensen, forstjóri Center for Cybersikkerhed, sagði að tölvuþrjótar þættust oft vera fulltrúar heilbrigðisyfirvalda og sendu frá sér blekkingarbréf í því skyni að kalla eftir viðkvæmum upplýsingum eða til að brjótast inn í tölvur viðkomandi. Ítalir hefðu orðið illa fyrir barðinu á þessum glæpamönnum.

Í Danmörku vinnur Center for Cybersikkerhed náið með embætti ríkislögreglustjóra og PET, dönsku öryggislögreglunni. Sérstaklega er fylgst með ógnum gegn lykilkerfum samfélagsins: orkukerfinu, fjarskiptakerfinu, flutningakerfinu, siglingakerfinu, fjármálakerfinu og heilbrigðiskerfinu.

Þá hvatti forstjórinn þá sem nota tölvur við fjarvinnu frá heimilum sínum að beina athygli sinni að net- og tölvuöryggismálum, benti hann á vefsíðuna sikkerdigital.dk þar sem finna mætti ábendingar um öflugar varnir. Við upplýsingaöflun vegna veirunnar benti hann á að fólk skyldi nýta sér opinberar vefsíður.

Víðar í Evrópu ganga ráðherrar fram með samskonar boðskap. Joachim Hermann, innanríkisráðherra Bæjaralands, sagði miðvikudaginn 18. mars að tölvuglæpamenn nýttu sér Covid-19 heimsfaraldurinn til að stela einkagögnum fólks í netheimum. Glæpamennirnir sendu út tölvubréf sem líktust upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum eða WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, eða þeir auglýstu andlitsgrímur en sendu um leið frá sér eitraða netorma. Sumir þættust vera í fjölskyldu þess sem fengi tölvubréfið, þeir segðust veikir og bæðu um fjárhagsaðstoð.

„Jafnvel á kórónuveirutíma ættu menn ekki að opna viðhengi frá ókunnum sendanda og nálgast allar sendingar af varúð,“ sagði innanríkisráðherrann.

Hér á landi er ekki nein opinber stofnun sem gegnir sama hlutverki og Center for Cybersikkerhed í Danmörku. Raunar hefur íslenskum stjórnvöldum ekki tekist að skipa netvörnum hér á landi í viðunandi horf innan stjórnkerfisins þrátt fyrir umræður misserum saman.

Vandinn er viðurkenndur hér eins og annars staðar og magnast við núverandi aðstæður. Það er hluti almannavarna að snúast gegn honum hvort sem er á Covid-19 tímum eða ekki. Núverandi staða á þessu sviði veiruvarna er algjörlega óviðunandi hér á landi.