15.6.2021 10:07

NATO saumar að Kína

Vissulega er blæbrigðamunur í afstöðu stjórnvalda einstakra NATO-ríkja til Kína, skárra væri það í 30 ríkja hópi. Á hinn bóginn er texti yfirlýsingarinnar birtur í nafni þeirra allra.

Á ríkisoddvitafundi NATO mánudaginn 14. júní í Brussel, þriðja toppfundi NATO sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra situr, var hert á gagnrýni á alhliða hervæðingu Rússa, sérstökum mótmælum var hreyft gegn kjarnorkuvopnavæðingu þeirra og fjölþátta árásum í netheimum.

Að ályktað sé um hættuna af hernaðarbrölti Rússa á NATO-fundum er ekki nýtt en hitt vekur meiri athygli hvernig nú er vikið að Kína. Bent er á að í 79. greina yfirlýsingu fundarins sé 62 sinnum minnst á Rússa en 10 sinnum á Kínverja.

Bent er á að yfirlýsingar Kínastjórnar um markmið hennar og sjálfbirgingsleg framganga feli í sér kerfisbunda ögrun við skipan alþjóðamála sem reist sé á umsömdum reglum og við svæði sem snerta öryggi NATO-ríkjanna.

51246699841_41d2a59789_oKatrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í NATO-fundarsalnum í Brussel 14. júní 2021 (mynd: af vef stjórnarráðsins).

Þá er vakið máls á því að Kínverjar auki nú hratt kjarnorkuvígbúnað sinn með fleiri sprengjuoddum og fjölgun háþróaðra skotkerfa. Þá vinni Kínverjar hernaðarlega með Rússum, þar á meðal með þátttöku í æfingum Rússa á Evró-Atlantshafssvæðinu.

Á blaðamannafundi eftir toppfundinn benti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, á að í sambærilegu skjali fyrir 18 mánuðum hafi í fyrsta sinn í sögu NATO verið minnst á Kína. Árið 2019 var minnst á „tækifæri og úrlausnarefni“ tengd Kína.

Stoltenberg áréttaði: „Kínverjar eru ekki andstæðingar“ um leið og hann minnti á að útgjöld þeirra til varnarmála væri önnur mestu í heiminum, þeir réðu nú þegar yfir stærsta herflotanum og verðu stórum fjárhæðum í nýjan vígbúnað og til þjálfunar herafla síns. Benti hann sérstaklega á áherslu Kínverja á tækni sem yrði til þess að breyta eðli hernaðarátaka með sjálfvirkum kerfum, andlitsgreiningu og gervigreind.

Stoltenberg sagði að ekki væri farið út fyrir svæðismörk NATO-samstarfsins þegar orðum væri vikið að Kína. Engum dytti í hug að NATO færði út kvíarnar til Asíu heldur væri með varnarorðum á ályktun toppfundarins brugðist við því að Kínverjar nálguðust NATO-svæðið.

„Við sjáum Kínverja nálgast okkur í netheimum, þeir ráða yfir mannvirkjum í Afríku og Arctic [Norðurslóðum], þeir taka þátt í þjálfun með Rússum á Norður-Atlantshafi,“ sagði framkvæmdastjóri NATO.

Vissulega er blæbrigðamunur í afstöðu stjórnvalda einstakra NATO-ríkja til Kína, skárra væri það í 30 ríkja hópi. Á hinn bóginn er texti yfirlýsingarinnar birtur í nafni þeirra allra.

Það er hvers þátttakanda að skýra sín sjónarmið í ljósi hennar. Ráðamenn Frakklands og Þýskalands höfðu til dæmis forgöngu um það í lok ársins 2020 að ESB gerði viðskiptasamning við Kína án stuðnings Bandaríkjamanna. Enn er óljóst hvenær hann verður fullgiltur en talsmenn samningsins minna á nauðsyn mikilvægi viðskipta við Kínverja, hvað sem öðru líði.

Í fréttatilkynningu á vefsíðu stjórnarráðsins um fundinn segir Katrín Jakobsdóttir að í innleggi sínu hafi hún lagt „sérstaka áherslu á loftslagsvána og mikilvægi þess að við náum árangri í afvopnunarmálum“.