3.3.2018 15:12

Mishátt vægi skoðana

Segjum að þarna hefði ekki talað rithöfundur heldur bóndi um vanda sauðfjárræktar, lagt til aukinn sýnileika og meira framboð af lambakjöti.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, stofnaði til ágætrar umræðu á alþingi mánudaginn 26. febrúar um lestrarvanda og aðgerðir til að sporna gegn honum. Allir sem tóku til máls voru sammála um að leysa yrði þennan vanda. Um nauðsyn þess að kunna að lesa er ekki deilt. Í lok framsöguræðu sinnar sagði Guðmundur Andri, þjóðkunnur rithöfundur:

„Við þurfum vitundarvakningu, við þurfum aukinn sýnileika og framboð bóka í daglegu lífi, við þurfum að gera barnabókahöfundum kleift að sinna skriftum með því að efla sjóði sem þeir geta leitað í. Stjórnvöld verða að líta á það sem forgangsmál að stórefla bókaútgáfu, ekki síst barnabókaútgáfu, þau þurfa að hætta skattlagningu á bækur og þau þurfa að fylla skólabókasöfnin af nýjum og ilmandi bókum.“

Þetta er vissulega ein leið: auka sýnileika og framboð, efla sjóði fyrir barnabókahöfunda, stjórnvöld stórefli bókaútgáfu, ekki síst barnabókaútgáfu, þau hætti að skattleggja bækur og fylli skólabókasöfn af nýjum og ilmandi bókum.

Segjum að þarna hefði ekki talað rithöfundur heldur bóndi um vanda sauðfjárræktar, lagt til aukinn sýnileika og meira framboð af lambakjöti, krafist eflingu sjóða fyrir sauðfjárbændur, að stjórnvöld stórefldu sauðfjárrækt til dæmis með skattaívilnunum og tryggðu bændum hlöður fullar af ilmandi heyi. Ætli allt hefði ekki farið á annan endann á alþingi og utan þess? Ekki síst fyrir tilstuðlan Samfylkingarinnar sem heldur nú landsfund undir kjörorðinu: Eitt samfélag fyrir alla.

Reynslan sýnir að fái Samfylkingin tækifæri til að útfæra stefnu sína um eitt samfélag fyrir alla skilgreinir hún atvinnugreinar eins og landbúnað og sjávarútveg sem sérhagsmunagreinar, ganga verði á hlut þeirra til að stefnan verði að veruleika. Talaði bóndi á alþingi á þann veg sem að ofan er lýst yrði hann úthrópaður sem sérhagsmunaseggur. Því hefur hvergi verið hreyft að Guðmundur Andri hafi gætt sérhagsmuna með ræðu sinni – tilgangurinn var auðvitað annar: að sigrast á lestrarvandanum.

Mismunun í umræðum birtist í ýmsum myndum. Föstudaginn 2. mars birti Öryggissamvinnustofnun Evrópu (ÖSE) skýrslu um framkvæmd þingkosninganna hér 28. október 2017. Þar segir að huga beri að því að setja á fót sjálfstæða kosningastofnun. Bæta þurfi aðferðir til að sannreyna hvort rétt sé staðið að framlagningu framboðslista. Óviðunandi sé að utankjörstaðaatkvæðagreiðsla hefjist án þess að vitað sé um framboð. Þá er vikið að því að „þriðju aðilar“ hafi látið að sér kveða dagana fyrir kosningar og beint spjótum sínum á neikvæðan hátt að einstökum flokkum eða frambjóðendum, engar reglur gildi um slíka starfsemi og sé nauðsynlegt að huga að setningu þeirra, þar á meðal um skilagrein á útgjöldum í tengslum við kosningar. Minnst er á lögbannið á birtingu lekinna gagna frá Glitni. Sagt er frá því að á fundi eftirlitsnefndar ÖSE með fulltrúum Sjálfstæðisflokksins hafi þeir vakið máls á grunsemdum um hlutdrægni fjölmiðla sem sögðu frá lögbanninu á þann veg að það snerti forsætisráðherrann einan.

Álitsgjafar andstæðir Sjálfstæðisflokknum hneykslast á að vakið var máls á þessum hlutdræga fréttaflutningi við fulltrúa ÖSE. Eftirlitsmennirnir hefðu þó ekki getið um kvörtunina í skýrslu sinni hefði þeim ekki þótt hún þess virði.

ÖSE gerir ekki út eftirlitsmenn til að gera skoðunum mishátt undir höfði þótt mörgum þyki slíkt sjálfsagt hér, meira að segja í miðlum sem skulu að lögum vera óhlutdrægir.