7.4.2019 10:28

Minnisstæð ferð að Kirkjubæjarklaustri

Ferðin til Kirkjubæjarklausturs var farin í leigubílum. Frá Reykjavík komu auk okkar feðga meðal annarra Guðmundur Jónsson söngvari og Ævar Kvaran leikari.

Í grein í Morgublaðinu föstudaginn 5. apríl, sem lesa má hér, rifjaði ég upp ferð með föður mínum á héraðsmót sjálfstæðismanna á Kirkjubæjarklaustri 21. október 1956 þegar ég var 11 ára gamall.

Þá um sumarið hafði fyrsta vinstri stjórnin verið mynduð með þátttöku framsóknarmanna, alþýðuflokksmanna og alþýðubandalagsmanna. Aðdraganda stjórnarmyndunarinnar mátti rekja til vorsins 1956 þegar þingmenn þessara þriggja flokka sameinuðust á þingi gegn sjálfstæðismönnum um ályktun gegn dvöl bandaríska varnarliðsins, en framsóknarmenn og sjálfstæðismenn sátu þá í stjórn. Baðst hún lausnar, þing var rofið og boðað til kosninga.

Fyrir kosningarnar varð til hræðslubandalagið svonefnda, kosningabandalag Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins, sem hafði að höfuðmarkmiði að ýta Sjálfstæðisflokknum varanlega til hliðar í íslenskum stjórnmálum.

Systrafoss-kirkjubaejarklausturFrá Kirkjubæjarklaustri.

Þetta voru miklir óvissutímar hér og á alþjóðavettvangi. Skömmu eftir ferð okkar á Kirkjubæjarklaustur dró til tíðinda í Ungverjalandi þar sem þjóðin reis gegn stjórn kommúnista en var brotin á bak aftur af sovéskum skriðdrekum og við Súeskurð í Egyptalandi þar sem Bretar og Frakkar fóru halloka gegn Nasser í hernaðarátökum.

Ferðin til Kirkjubæjarklausturs var farin í leigubílum. Frá Reykjavík komu auk okkar feðga meðal annarra Guðmundur Jónsson söngvari og Ævar Kvaran leikari. Sjálfstæðisflokkurinn lagði jafnan áherslu á að fá fremstu listamenn til þátttöku í héraðsmótum sínum og á ég margar ógleymanlegar minningar tengdar þeim.

Á leiðinni austur var ekið heim að Holti undir Eyjafjöllum þar sem sr. Sigurður Einarsson bjó. Það voru merk tíðindi í sjálfu sér að hann, fyrrv. þingmaður Alþýðuflokksins og hallur undir kommúnisma, skyldi taka þátt í héraðsmóti sjálfstæðismanna. Síðan var komið við í sýslumannsbústaðnum í Vík í Mýrdal þar sem Jón Kjartansson alþingismaður slóst í hópinn.

Veðrið var slæmt og versnaði á leiðinni yfir Mýrdalssand og þurfti að ganga á undan bílunum ef á annað borð var unnt að hreyfa þá, sandur og ryk fór inn um allar rifur. Við komumst við illan leik yfir sandinn, setningu mótsins seinkaði en allt fór þar fram eins og kynnt hafði verið.

Þar sannaðist sem Þórður Tómasson í Skógum sagði um sr. Sigurð í Holti í aldarminningu í Morgunblaðinu 29. október 1998:

„Hann var ræðusnillingur af guðs náð og það, samfara meitluðum framburði, fangaði hug allra er á hlýddu. Þetta var á vitorði allra landsmanna, um mörg ár flutti Ríkisútvarpið rödd hans inn á hvert heimili. "Rómurinn var mikill yfir málinu" eins og segir í gamalli frásögn.“

Engum ferðalanganna varð meint af barningnum á sandinum þótt áhyggjur væru ef fágæt rödd ástkæra söngvarans Guðmundar Jónssonar kynni að hafa skaddast. Lakkið á bílunum var hins vegar ónýtt en því mátti bjarga.