23.12.2020 10:10

Miðstýrð húsagerðarlist

Það er síður en svo einsdæmi að ráðamenn móti sér skoðanir á húsagerðarlist og reyni að hrinda þeim í framkvæmd í krafti valds síns.

Umræðurnar um mannautt Hafnartorg í hjarta Reykjavíkur þar sem vindstrengir eru sagðir valda vandræðum minna á að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vildi að við skipulag þessa svæðis yrði farið að fordæmi frá Frankurt þar sem hús í gömlum stíl voru reist í miðborginni.

Í tíð sinni sem forsætisráðherra lagði Sigmundur Davíð til að bygging skrifstofuhúsnæðis alþingis yrði reist á aldargömlum teikningum Guðjóns Samúelssonar. Arkitektarnir Margrét Harðardóttir og Steve Christer hjá Studio Granda unnu hins vegar hugmyndasamkeppni um bygginguna og niðurstaðan var kynnt í desember 2016 og nú eru framkvæmdir við hana hafnar.

Fyrsta steypan rann í nýbyggingu skrifstofuhússins 11. desember 2020 og var byrjað á tækni- og lyftugryfju. Gert er ráð fyrir að samtals muni þurfa 4.485 rúmmetra af steypu í bygginguna, mótafletir verði 19.925 fermetrar, steypustyrktarstál 465.000 kg, glerveggir 692 fermetrar og botnplatan verður 60 sentímetra þykk. Þá verða settir í húsið alls 142 gluggar og 187 innihurðir. Flatarmál aðalbyggingarinnar verður 5.073 fermetrar að viðbættum 1.307 fermetra bílakjallara. Heildarkostnaðaráætlun hússins er um 4,5 milljarðar króna án verðbóta. Verklok eru áætluð í lok apríl 2023.

Sjónarmið Sigmundar Davíðs náðu ekki fram að ganga vegna nýja skrifstofuhúss alþingis og enginn minnist nú á þessa hugmynd hans. Það er þó gert hér til að benda á að það er síður en svo einsdæmi að ráðamenn móti sér skoðanir á húsagerðarlist og reyni að hrinda þeim í framkvæmd í krafti valds síns. Öllum er ljóst að náin samvinna Guðjóns Samúelssonar við Jónas Jónsson frá Hriflu birtist í mörgum byggingum sem reistar voru eftir teikningum Guðjóns. Pétur Ármannsson arkitekt hefur skrifað glæsilega bók um Guðjón sem seldist upp nú fyrir jólin og er tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Skilti-1Skilti sem sýnir nýbyggingarsvæði á svonefndum Alþingisreit milli Vonarstrætis og Kirkjustrætis.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sendi mánudaginn 21. desember frá sér fyrirmæli um að framtíðarbyggingar alríkisstjórnar Bandaríkjanna ættu að vera „fallegar“ og helst teiknaðar í grísk/rómverskum stíl. Vill forsetinn að byggingarnar hafi „mikilfenglegt“ yfirbragð og við val á tillögum arkitekta beri að taka ríkara tillit til lausna sem séu „klassískar“ og „hefðbundnar“ en annarra.

Trump hefur í huga yfirbragð frægustu stjórnarbygginganna í Washington: Hvíta hússins, þinghússins og byggingar hæstaréttar auk Lincoln-minnismerkisins.

Í fréttum segir að upphaflega tillaga Trumps hafi verið að banna smíði allra alríkisbygginga sem ekki væru í þeim stíl sem að ofan er lýst. Sættu þau áform mikilli gagnrýni og var tillagan þá milduð án þess að um hana ríki nokkur sátt. Forráðamenn samtaka bandarískra arkitekta segja að fólk eigi að fá að ráða sjálft hvernig húsagerðarlist (arkitektúr) falli best að þörfum þess.

Minnt er á að Donald Trump hafi verið umsvifamikill fasteignaeigandi áður en hann varð forseti og þekktur fyrir að reisa nútímaleg háhýsi úr gleri, stáli og gylltum vegglistum.