6.8.2018 9:30

Meistarasýning á Meistarasöngvurunum

Miklar umræður urðu í fyrra um þessa uppsetningu. Kosky velur þá leið að færa Wagner sjálfan og vini hans inn í sýninguna.

Á Wagner-hátíðinni í Bayreuth í Festspielhaus sem Richard Wagner hannaði og lét reisa tíðkast að setja sömu sýningarnar upp ár eftir ár, að minnsta kosti í þrjú ár.

Í ár eru Meistarasöngvararnir frá Nürnberg, Die Meistersinger von Nürnberg, sýndir annað árið í röð í uppsetningu eftir Barrie Kosky, listrænan stjórnanda Komische Oper í Berlín, en Philippe Jordan, hljómsveitarstjóri við Bastillu-óperuna, stjórnar hljómsveitinni. Aðalhlutverkið, Hans Sachs, syngur Micahel Volle. Þetta hlutverk í óperum Wagners er sagt lengst allra. Óperan er einnig löng, tekur fjóra og hálfan tíma í flutning án hléa. Í Festspielhaus eru tvö hlé, hófst sýningin í gær klukkan 16.00 og lauk um 22.40.

Frá hótelinu var unnt að fara með sérstakri rútu klukkan 15.00 en niður af hæðinni þar sem Festspielhaus stendur er um 20 mínútna þægilegur gangur að hótelinu í kvöldkyrrðinni að sýningu lokinni. Það má því segja að þetta hafi alls verið um átta tíma törn. Var hún vissulega vel þess virði.

Fimmtán mínútum áður en sýning hefst eða hléi lýkur koma lúðrablásarar fram á svalir hússins og þeyta horn sín í örstutta stund með stefí úr viðkomandi óperu, sjá ljósmynd.

Img_6769Blásið til leiks í Festspielhaus.

Upphaflega var óperan flutt í München 1868.  Tuttugu árum síðar, 1888, var hún fyrst sýnd í Bayreuth. Síðan hafa verið 12 uppsetningar á óperunni hér.

Miklar umræður urðu í fyrra um þessa uppsetningu. Kosky velur þá leið að færa Wagner sjálfan og vini hans inn í sýninguna. Fyrsta atriðið á meðan forleikur er fluttur lætur hann gerast á heimili Wagners í Wahnfried hér í Bayreuth. Þar eru Wagner og fleiri kynntir til leiks áður en þeir breytast sjálfir í höfuðpersónur verksins og verður Wagner að Hans Sachs sem á undir högg að sækja í verkinu.

Kosky er fyrsti gyðingurinn sem fær tækifæri til að setja upp sýningu í 142 ára sögu Festspielhaus (opnað 1876) og þetta tækifæri notar hann til að gera upp við gyðingahatur Wagners með því að breyta sviðinu í réttarsal Nürnberg-réttarhaldanna þar sem nazistar hlutu dóma árið 1945.

Í lokaatriði annars þáttar birtist stór uppblásinn gyðingur á sviðinu sem síðan er trampað á þegar allt loft fer úr honum. Þegar tjaldið féll varð mikið uppnám meðal áhorfenda, sumir hrópuðu upp yfir sig af hrifningu aðrir púuðu kröftuglega.

Skýrendur á óperum Wagners segja að með Hans Sachs skilgreini Wagner eigin afstöða á þeim árum sem óperan var samin. Ítalir og Frakkar höfðu myndað sterkt sameinandi ríkisvald en í Þýskalandi voru enn mörg smáríki og óttaðist Wagner að án þess að staðinn yrði vörður um þýska menningararfleið getu þýsk smáríki orðið öflugum nágrannaríkjum að bráð. Sagan af Hans Sachs og meistarasöngvurunum í Nürnberg var frá 16. öld og snerist um ástir og virðingu fyrir menningararfleifðinni.

Þegar Festspielhaus var opnað að nýju árið 1924 eftir lokun þess í fyrri heimsstyrjöldinni stóðu áheyrendur á fætur í lokakór Meistarasöngvaranna og sungu við svo búið Deutschland über alles. Eftir að þýska þinghúsið var endurreist af Hitler og opnað að nýju árið 1933 var því fagnað með því að sýna óperuna.

Richard Wagner verður ekki sakfelldur fyrir að nazistar leituðust við að slá sér upp á kostnað hans. Sýningin í Bayreuth núna snýst ekki heldur um það. Hún snýst um listamanninn Wagner með kostum hans og göllum eins og staðfest er í lokaatriði þessarar mögnuðu uppfærslu á Meistarasöngvurunum.