17.12.2020 10:44

Mannautt torg

Fyrir utan að birta mynd af því hvernig götumynd Skúlagötu verður við Frakkastíginn rísi nýja húsið birti ég hér tvær myndir sem sýna framkvæmdagleði.

Í Morgunblaðinu í dag (17. desember) birtist ítarleg lýsing á því að Hafnartorg, það er nýtt torg norðan við Lækjartorg í Reykjavík, sé mannautt og muni aldrei kalla á neina umferð gangandi fólks að óbreyttu, annars vegar vegna vinda og kulda og hins vegna ráðstöfunar á húsnæði til verslana.

Hér skal enginn dómur lagður á hvort þessar spár rætist. Þær minna á hinn bóginn á hve lítt ráðþægur núverandi meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur er í skipulagsmálum (og fleiri málum) og fer sínu fram hvað sem tautar og raular. Þar ráða fulltrúar Pírata ferðinni og láta þá heyra það óþvegið sem voga sér að hreyfa andmælum eins og dæmin sanna þegar vikið er að uppdráttarsýkinni í miðborginni.

Eitthvert líf hefur færst í miðborgina í góða veðrinu í aðdraganda jóla en annars má segja að allt „sé að gerast“ austan Kringlumýrarbrautar og úti á Granda þar sem fjölskyldubílnum hefur ekki verið úthýst þrátt fyrir skipulagsstefnuna um bíllausan lífsstíl.

1246488Þessi mynd birtist i Morgunblaðinu og sýnir fyrirhugað umdeilt hús að Frakkastíg 1.

Eitt dæmi um ofríkisstefnuna í skipulagsmálum er rakið í Morgunblaðinu í dag þar sem sagt er frá fyrirhugaðri nýbyggingu á Frakkastíg 1. Í frétt Sigtryggs Sigtryggssonar er sagt frá því að stjórn íbúasamtaka miðborgarinnar telji að nýja byggingin „nánast troði á hinni gömlu byggð í Skuggahverfi og á norðanverðu Skólavörðuholti og bak við hana muni m.a.s. hverfa úr sjónlínu sjö friðuð hús við Lindargötu sem flest hafi verið gerð fallega upp. Þá verði mjög þrengt að Tónmenntaskólanum, sem sé merkilegasta byggingin á svæðinu“.

Þessi athugasemd og aðrar komu til afgreiðslu skipulagsfulltrúa borgarinnar sem segir í umsögn „að ávallt megi vænta þess að þegar breytingar séu gerðar á skipulagi eða mannvirkjum geti það haft í för með sér skerðingu eða breytingar, s.s. að breyting verði á ákveðinni ásýnd á mannvirki frá ákveðnu sjónarhorni. Óbreyttur réttur til útsýnis sé ekki bundinn í lög. Þá sé ljóst að skuggavarp verði í algjöru lágmarki »m.a. vegna þegar byggðra hárra bygginga í nágrenninu“. Ennfremur verði uppbyggingu þannig háttað að staðinn verði vörður um sjónás niður Frakkastíginn,“ eins og segir í frétt blaðsins.

Á síðasta fundi borgarráðs var samþykkt tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem heimilar að þetta umdeilda hús rísi.

IMG_2674Þessi braut hefur verið lögð samhliða Bústaðavegi og Hörgshlíð.

IMG_2648Framkvæmdir eru hafnar við nýjan groddalegan stíg í gegnum skóginn í Öskjuhlíð.

Fyrir utan að birta mynd af því hvernig götumynd Skúlagötu verður við Frakkastíginn rísi nýja húsið birti ég hér tvær myndir sem sýna framkvæmdagleði. Annars vegar hefur tveggja akreina braut verið lögð samhliða Bústaðavegi og Hörgshlíð – fyrir göngu- og hjólafólk. Á næsta ári verða gerð göng undir Litluhlíð við Þóroddsstaði. Hins vegar eru framkvæmdir hafnar í Öskjuhlíðinni þar sem lagður verður að því er virðist groddalegur hringstígur í stað náttúrulegra stíga sem nú liggja um skógi vaxna hlíðina.