20.6.2022 10:45

Macron í kröppum vanda

Emmanuel Macron hefur tapað sigurímyndinni á heimavelli og berst nú fyrir pólitísku lífi sínu og hreyfingar sinnar í löskuðu stjórnkerfi V. lýðveldisins.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti er í miklum vanda þegar flokkur hans, Sameinuð! (Ensemble!), hefur ekki lengur meirihluta á þingi eftir slæma útreið í seinni umferð þingkosninganna sunnudaginn 18. maí. Flokkurinn fékk 38,48% atkvæða og 245 þingmenn af 577, þurfti 289 til að hafa hreinan meirihluta eins og verið hefur síðan 2017. Um 54% þeirra sem voru á kjörskrá sátu heima og sýndu með því áhugaleysi á kosningunum.

Sambærileg staða hefur aldrei myndast í frönskum stjórnmálum. Þó er minnt á að árið 1988 eftir að sósíalistinn François Mitterrand var endurkjörinn forseti hafi Sósíalistaflokkurinn ekki fengið meirihluta á þingi en þó haldið um stjórnartaumana með stuðningi mið-vinstri smáflokka við sósíalistann Michel Rocard sem forsætisráðherra. „Staðan núna er langtum dramatískari fyrir leiðtoga ríkisins,“ segir mið-hægra blaðið Le Figaro.

Þeirri fullyrðingu til stuðnings er bent á að eftir að kjörtímabil forsetans var stytt úr sjö árum í fimm árið 2000 hafi allir forsetar stuðst við þægilegan meirihluta á þingi: Jacques Chriac árið 2002, Nicolas Sarkozy árið 2007, François Hollande árið 2012 og Emmanuel Macron árið 2017.

Assemblee-nationale-french-parliament-paris-assemblee-nationale-palais-bourbon-french-parliament-paris-france-184705692Franska þinghúsið.

Að þessi skipan yrði á æðstu stjórn Frakklands var megin röksemdin fyrir því að kjörtímabil forsetans var stytt: franska þjóðin kysi forseta lýðveldisins og „gæfi“ honum svo kerfisbundið umboð til að stjórna með meirihluta á þingi að baki sér. Nú þegar Macron nær ekki hreinum þingmeirihluta hafa orðið kerfislæg umskipti í frönskum stjórnmálum sem Bruno Le Maire, fjármála- og efnahagsráðherra Macrons, kallar „lýðræðislegt áfall“ og vísar þar einkum til þess hve vel Þjóðarhreyfingu Marine Le Pen vegnaði í kosningunum.

Sú staðreynd að Þjóðarhreyfingin fékk 17,21% atkv. og 89 þingmenn er skýrt dæmi um stjórnkerfishrun í Frakklandi, kosningakerfið var hannað til að hindra sterka stöðu jaðarflokka í þinginu. Þær varnir brustu að þessu sinni. Le Figaro spyr: Stöndum við frammi fyrir upplausn í þjóðþinginu eins og var á tímum III. og IV. lýðveldisins eða endurheimt þingbundins lýðræðis sem stendur undir nafni?

Charles de Gaulle hershöfðingi lagði grunn að V. lýðveldinu árið 1958 og varð fyrsti forseti þess þar til hann hrökklaðist frá völdum í stúdentauppreisninni 10 árum síðar.

Í þingkosningunum nú tóku vinstri flokkarnir höndum saman í fyrsta sinn í 20 ár. Fyrir bandalagi þeirra (Nupes) fór vinstri sósíalistinn og ESB-efasemdarmaðurinn Jean-Luc Mélenchon. Hann var hvergi í kjöri en boðað var að hann yrði forsætisráðherra fengi Nupes nægan stuðning kjósenda. Svo fór ekki, bandalagið hlaut 31,76% atkv. og 131 þingmann og er fjölmennasti þingflokkur andspænis flokki Macrons. Að baki Nupes standa fjórir flokkar og er hugsanlegt að Macron leiti inn í raðir miðjumanna þar til að mynda þingmeirihluta.

Lýðveldissinnar, gamli flokkur Gaullista, Chiracs og Sarkozys, fékk 7,25% atkv. og 64 þingmenn. Líklegast er að meirihlutasamstarf takist á þingi milli þeirra og Macronista.

Emmanuel Macron hefur tapað sigurímyndinni á heimavelli og berst nú fyrir pólitísku lífi sínu og hreyfingar sinnar í löskuðu stjórnkerfi V. lýðveldisins. Í eina kjarnorkuveldinu í ESB ríkir stjórnarkreppa á tíma stríðs í Evrópu.