1.7.2020 10:27

Lýðhyggjan læðist

Ekki verður ákveðið nema með fjárlögum að unnt sé að hefja  opinberar greiðslur fyrir sálfræðiþjónustu á grundvelli samnings sem heilbrigðisráðherra gerir.

Á lokadegi þingsins var samþykkt að greiðslur fyrir sálfræðiþjónustu færðust inn í opinbera sjúkratryggingarkerfið. Það er mikilvægt og jákvætt skref sem lengi hefur verið beðið að löggjafinn stigi. Á hinn bóginn verður ekki ákveðið nema með fjárlögum að unnt sé að hefja þessar opinberu greiðslur á grundvelli samnings sem heilbrigðisráðherra gerir. Á þessari augljósu staðreynd vakti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra athygli.

08-Blog-Psychiatrist-Cancer-LLýðhyggjan tekur á sig ýmsar myndir eins og þá að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, telur sér sæma að gagnrýna fjármálaráðherra fyrir að lýsa stöðu þessa máls eins og hún er. Þetta telur Þorgerður Katrín „bera keim af gamaldags nálgun“. Hún segir á dv.is í dag (1. júlí): „Ég trúi því ekki fyrr en á reynir að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að standa í vegi fyrir því að við höldum áfram með þetta lífsgæða framtíðarmál.“

Þessi ummæli stangast alfarið á við að sjálfstæðismenn samþykktu lagabreytinguna á þingi en í henni felst engin undanþága frá því að farið sé með framkvæmd málsins eins og öll önnur þegar um útgjöld sjúkratrygginga er að ræða.

Forystumenn Viðreisnar leita ávallt með logandi ljósi að einhverju sem þeir telja sig geta notað til að sverta Sjálfstæðisflokkinn. Svartnætti þeirra er þó ekki eins mikið og hjá Aðalheiði Ámundadóttur, leiðararhöfundi Fréttablaðsins, sem skrifar 1. júlí um þinglok undir fyrirsögninni: Stjórnleysið.

Að velja þessa fyrirsögn á leiðara af þessu tilefni eftir að alþingismenn hafa á liðnum vetri sameinast um hvert málið eftir annað í markvissum viðbrögðum vegna COVID-19-faraldursins sýnir þekkingarleysi og djúpstæða óvild í garð þings og stjórnmálamanna – eina birtingarmynd lýðhyggju. Leiðarinn hefst á þessum orðum:

„Það er ekkert að marka Alþingi Íslendinga.“ (!)

Þar eru setningar eins og þessar:

„Á Íslandi ríkir ekki aðeins vantraust til stjórnmála, heldur beinlínis andúð. Það er ömurlegt því auðvitað ættum við að láta okkur þykja vænt um stjórnmál og stjórnmálaflokka...

[Stjórnmálaflokkarnir] eru ekki nógu fjölmennir til að geta talist fjöldahreyfingar, þeir hafa ekkert aðdráttarafl og eru lamaðir af manneklu, af því það elskar þá enginn...

Við gerum sjaldan neitt með glæsibrag lengur heldur þurfa öll mál að vera svolítið léleg líka, ýmist til að styggja engan í baklandinu, eða sætta ólík sjónarmið sem eiga engan uppruna annan en persónulega óvild stjórnmálamanna, sem geta ekki, eða vilja ekki, vinna saman og hafa því kosið íslensku leiðina, að stofna nýjan flokk.“

Eitt meginskilyrði fyrir skynsemi í stjórnmálum er að um þau sé fjallað af skynsemi. Blekkingar og órökstuddar upphrópanir gegn alþingi, stjórnmálaflokkum og lögbundinni stjórnsýslu eru til þess eins fallnar að ýta undir óreiðu og vandræði – kjörlendi lýðhyggjunnar.