3.11.2018 11:25

Lofsamleg umsögn um Þrymskviðu

„Þrymskviða er stórskemmtileg og áhrifarík ópera,“ sagði Jónas Sen í umsögn sinni í Fréttablaðinu 2. nóvember.

Þrymskviða, ópera eftir Jón Ásgeirsson tónskáld var flutt í Norðurljósum í Hörpu föstudaginn 26. október. Minntist ég þess hve ánægjulegt var að sjá hana árið 1974 þegar hún var frumflutt í Þjóðleikhúsinu. Var hún valin til flutnings sem verðlaunaverk í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar.

Verkið er reist á Eddukvæðum og segir frá því þegar Þór fer til jötunheima dulbúinn sem Freyja til að ná í hamar sinn. Þetta er gamanverk í fjórum þáttum og kárnar gamnið eftir því sem líður á verkið. Hámarki nær það í glæsilegum lokakór.

IMG_7381Leikstjórinn Bjarni Thor Kristinsson (t.v.) og hljómsveitar- og kórstjórinn Gunnsteinn Ólafsson fagna Jóni Ásgeirssyni tónskáldi í lok sýningarinnar á Þrymskviðu í Norðurljósum föstudaginn 26. október 2018.

Jón Ásgeirsson varð níræður á dögunum en um margra áratuga skeið var hann samhliða tónsmíðum og kennslu tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins. Tókust þá með okkur kynni því að Jón staldraði oft við á ritstjórninni þegar hann kom þangað með vélritaða umsögn sína fyrir tíma tölvunnar. Á stórum stundum skrifaði hann texta sinn að kvöldi sýningar svo að birta mætti hann næsta dag. Mikill metnaður var af hálfu ritstjóra að birta umsagnir um listviðburði og bækur hratt og skipulega.

IMG_7388Flytjendum var innilega fagnað í lok sýningar föstudaginn 26. október 2018.

Að þessu sinni birtist umsögn um sýninguna á Þrymskviðu í Fréttablaðinu föstudaginn 2. nóvember eftir Jónas Sen. Hann segir meðal annars:

„Bjarni Thor Kristinsson var leikstjóri og vann verk sitt ágætlega, því hvergi  var  dauður  punktur  í  sýningunni. Einsöngvararnir stóðu sig mjög vel í leik og söng. Guðmundur Karl Eiríksson var flottur Þór, röddin hraustleg og kröftug. Þorsteinn Freyr  Sigurðsson  var  líka  prýðilegur sem Heimdallur og það sópaði að Keith Reed í hlutverki Þryms. Agnes Thorsteins var skemmtilega ögrandi  í  hlutverki  Grímu, systur hans. Og Margrét Hrafnsdóttir var svipmikil Freyja þó hún hafi verið eilítið óörugg í byrjun.

Eyjólfur  Eyjólfsson  var  frábær.  Bæði var söngurinn stórfenglegur og hann var einkar trúverðugur í hlutverki  hins  slóttuga  Loka.  Ekki  síst þegar hann var í dragkenndu gervi þjónustustúlku en þá stal hann eftirminnilega senunni.

Sinfóníuhljómsveit  unga fólksins spilaði, sem var dálítið óheflað eins og við er að búast þegar nemendur leika. Sömu sögu er að segja um  Háskólakórinn,  sem  samanstendur af misskóluðu áhugafólki.Leik- og sönggleðin  fleytti þeim engu að síður yfir tæknilega örðugleika.  Þeim  tókst  svo  um  munaði að magna upp réttu stemninguna undir  líflegri  stjórn  Gunnsteins Ólafssonar.

Þrymskviða er stórskemmtileg og áhrifarík ópera. Ekki aðeins eru  laglínurnar það grípandi að þær ómuðu lengi í höfði mínu eftir sýninguna,  heldur  er  uppbygging verksins afar sannfærandi. Flæðið í tónlistinni er óheft, stígandin í henni markviss og spennandi. Sumir kaflarnir framkölluðu gæsahúð; hvílíkir  hápunktar!  Óskandi væri að Þrymskviða yrð sett upp aftur og þá í stærri sviðsetningu; hún á það svo sannarlega skilið.“

Undir þessi orð Jónasar skal tekið. Það er aðdáanlegur dugnaður hjá Gunnsteini Ólafssyni og samstarfsmönnum hans að efna til þessa listviðburðar.

Nú þegar Þór og Loki eru orðnar heimsþekktar Merlin hetjur  ætti að sýna þessa óperu reglulega fyrir íslenska og erlenda áhorfendur með glæsilegri skrá þar sem textar eru prentaðir á íslensku og ensku. Arfur Snorra Sturlusonar frá Reykholti tekur á sig ýmsar myndir – okkur ber að leggja rækt við frumleikann.