6.8.2022 11:24

Ljósmynd og breytt heimsmynd

Ljósmyndin minnir einnig á hve litlar umræður hafa orðið hér um stöðuna í utanríkis- og öryggismálum frá því að NATO samþykkti nýja grunnstefnu á fundi sínum í Madrid.

Myndin sem birtist með þessum pistli var tekin á ríkisoddvitafundi NATO í lok júní 2022 og sýnir fjóra norræna forsætisráðherra auk Finnlandsforseta fagna að á fundinum var ákveðið að formlegt aðildarferli Finna og Svía að bandalaginu hæfist. Ljósmyndin sýnir hvernig heimsmyndin hefur breyst á árinu 2022.

NatÁ NATO-toppfundi í Madrid: Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Sauli Niinistö, forseti Finnlands, Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs og Katrín Jakobsdóttir.

Öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti aðildina miðvikudaginn 3. ágúst, með 95 atkv. gegn 1, og urðu Bandaríkin þar með 23. NATO-ríkið til að veita aðild norrænu þjóðanna tveggja formlegt samþykki sitt. Sauli Niinistö Finnlandsforseti fagnaði fimmtudaginn 4. ágúst og sagði að hraðinn á aðildarafgreiðslunni væri jafnvel meiri en menn hefðu vænst.

Forsetinn minnti á að Finnar nytu ekki öryggistryggingarinnar sem fælist í 5. gr. Atlantshafssáttmálans fyrr en öll NATO-ríkin 30 hefðu staðfest samþykki sitt á stjórnskipulegan hátt.

Eins og kunnugt er hefur Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti notað umsóknir Finna og Svía til að gera sig merkilegan gagnvart þjóðunum og öðrum NATO-ríkjum. Hann skiptir tíma sínum á milli viðræðna við Vladimir Pútin og merkilegheita til vesturs. Niinistö sagðist ekki „hrikalega kvíðinn“ vegna afstöðu Tyrkja, viðræður Finna og Svía við þá mundu halda áfram.

Ljósmyndin minnir einnig á hve litlar umræður hafa orðið hér um stöðuna í utanríkis- og öryggismálum frá því að NATO samþykkti nýja grunnstefnu á fundi sínum í Madrid. Stefnan hefur ekki enn birst á íslensku og ráðherrar eða embættismenn sem sátu fundinn fyrir Íslands hönd hafa ekki skýrt frá áhrifum hennar á stefnu ríkisstjórnarinnar eða þjóðaröryggisstefnuna.

Nú þegar stjórnmálamenn hefja fundi að nýju, ríkisstjórnin hélt fyrsta fund eftir sumarleyfi í gær (5. ágúst), hljóta þeir að taka stöðu Íslands í umheiminum til umræðu. Ekki veitir af að gera þjóðinni grein fyrir því sem gerst hefur og hvert stefnir. Hljóta að verða sérstakar umræður um þessi mál strax og þing kemur saman síðsumars, hjá því verður ekki komist.

Finnlandsforseti tók til máls um ákvörðun öldungadeildar Bandaríkjaþings strax daginn eftir að hún var tekin. Þann sama dag, 3. ágúst, lagði sameiginlegur norðurslóðahópur beggja flokka í öldungadeildinni fram frumvarp þar sem Bandaríkjastjórn er heimilað að gera fríverslunarsamning við Ísland eins og sagt var frá hér í gær.

Það er til marks um værukæra stjórnmála- og fjölmiðlamanna hér að enginn kveikti á perunni um að þarna væri komið til móts við óskir íslenskra stjórnvalda á afgerandi hátt; ekki síður en Finnum varð að ósk sinni um NATO-aðildina.

Þögnin um utanríkis- og varnarmálum er meiri hér en í nokkru nágrannalandi. Haldi menn að unnt sé að þegja af sér óveðrið af völdum Vladimirs Pútins er um mikinn misskilning að ræða. Það fellur ekki allt í sama farið eftir stríðið, hvenær sem því lýkur. Ljósmyndin fyrrnefnda sýnir það. Finnar og Svíar fara ekki úr NATO. Þeir verða þar vegna þess að nágrannar Rússa geta aldrei gengið að eigin öyggi sem vísu – það á einnig við um Íslendinga. Gera verður viðunandi ráðstafanir til að tómarúm freisti ekki ofbeldisaflanna.