11.9.2021 12:17

Litlahlíð í hers höndum

Hér eru birtar myndir frá framkvæmdum í Litluhlíð, 105 Reykjavík. Þar fara borgaryfirvöld enn einu sinni sínu fram án tillits til sjónarmiða borgaranna.

Að þessu sinni birtast hér nokkrar myndir af framkvæmdum á Litluhlíð sem tengir Eskitorg og Bústaðaveg í 105 Reykjavík við hlið bænaturns múslima sem eiga samkomuhús á horni Skógarhlíðar, Litluhlíðar og Bústaðavegar.

Efsta myndin er tekin 13. maí 2021 þegar framkvæmdir hófust með því að brjóta upp götuna. Næsta mynd þar fyrir neðan er tekin á svipuðum stað 10. september 2021. Sagt er að ljúka eigi framkvæmdum í maí.

Þriðja myndin sýnir göngin sem gerð hafa verið undir Litluhlíðina og tengja þau göngu- og hjólastíga þannig að greiðfært verður að vestan að Veðurstofureitnum svonefnda og þaðan áfram austur með Bústaðavegi eða niður á Kringlumýrarbraut. Neðsta myndin er skýrð fyrir neðan hana.

IMG_3429IMG_4060IMG_4056IMG_4055Sé litið á horn Litluhlíðar og garðsins við Hörgshlíð 2, lengst til hægri á myndinni, fyrir neðan rauðu rörin, skal þess getið að þar var vegrið til að varna því að bifreiðar rynnu fram af brúninni og niður í garðinn. Var vegriðið ekki sett að ástæðulausu enda er oft hált þarna. Þegar Litlahlíð verður opnuð að nýju verður þar ein akrein niður brekkuna.

Áform eru um vegrið í Litluhlíð yfir göngunum en ekki alveg niður með garðinum á Hörgshlíð 2. Ætlunin mun vera að leggja göngu- og hjólastíg niður brekkuna fyrir norðan göngin en sjá má móta fyrir honum á myndinni. Skýringin á nauðsyn þess að leggja þennan stíg er að börn úr Hlíðaskóla noti hann til að komast í Valsheimilið sem er enn vestar. Þessi skýring er hreinn fyrirsláttur og brýtur augljóslega gegn öryggissjónarmiðum.

Fari börn í Hlíðaskóla á annað borð í Valsheimilið, þau urðu að gera það áður en íþróttahús reis við skólann, leggja þau leið sína niður Eskihlíð eða Skógarhlíð án þess að fara fyrst upp þessa brekku til að fara í gegnum ný göng undir Litluhlíð.

Íbúar við Hörgshlíð hafa varað borgaryfirvöld við að sleppa vegriðinu á Litluhlíð og er undarlegt ef öryggissjónarmið víkja fyrir ímyndaðri þörf skólabarna vegna ferða í Valsheimilið.

Nafn þessarar stuttu tengigötu lætur ekki mikið yfir sér en vandræðin sem lokun hennar hefur skapað eru augljós öllum sem fylgst hafa með umferð þarna. Ætti það að sanna borgaryfirvöldum hve óskynsamlegt er að þrengja umferð um Litluhlíð til frambúðar eins og líklegt er að verði gert. Þrengingin er hins vegar í anda vinstri umferðar- og biðraðamenningarinnar sem einkennir nú alla umferð um höfuðborgarsvæðið í boði skipulagsyfirvalda borgarinnar.