8.1.2023 10:47

Lífshættulegt aðgerðaleysi

Miðað við gamla snjóruðninginn á göngubrautinni við Blindraheimilið og Hlíðaskólann þar sem lífshættan blasir við öllum eru litlar líkur á að borgaryfirvöldin bregðist við ósýnilegri hættu í andrúmsloftinu á annan veg en með nöldri yfir nagladekkjum.

Aðfaranótt laugardags 17. desember snjóaði í Reykjavík og öll umferð fór úr skorðum.

Nú er 8. janúar. Hér fylgir mynd sem tekin var í morgun á göngubraut yfir Hamrahlíð á móts við Blindraheimilið þar sem ljós stýra umferð yfir Hamrahlíðina í Hlíðaskóla og Menntaskólann við Hamrahlíð. Þarna sést að ekki hefur enn verið mokuð leið í gegnum ruðninginn sunnan við Hamrahlíðina, gulu veggirnir eru á íþróttahúsi Hlíðaskóla. Börn, blindir og aðrir sem fara yfir á þessum mikið notuðu ljósum þurfa að klöngrast yfir þessa hindrun til að komast á göngustíg sem hefur þó verið ruddur.

IMG_6404Mynd tekin að morgni sunnudags 8. janúar 2023 af göngubraut við ljós í Hamrahlíð við Blindraheimilið og Hlíðaskóla.

Þetta aðgerðaleysi borgaryfirvalda í öryggismálum gangandi fólks við Blindraheimili og grunnskóla er í raun lífshættulegt. Engu öðru er þar um að kenna en borgaryfirvöldum sjálfum og kröfum sem þau gera við hreinsun vegna snjókomu.

Í dag fór hitastig í borginni upp fyrir frostmark og það er dálítil gola. Hættuástandið sem ríkt hefur undanfarna daga vegna logns og frosts er úr sögunni – í bili að minnsta kosti.

Afsakanir Dags B. Eggertssonar borgarstjóra vegna aðgerðaleysis af hálfu borgaryfirvalda „vegna mengunar innan borgarmarkanna gætu falið í sér brot á EES samningi að sögn prófessors í umhverfisrétti. Ákvæði séu í lögum um að grípa verði til skammtímaráðstafana,“ sagði í hádegisfréttum ríkisútvarpsins laugardaginn 7. janúar.

Dagur B. beindi spjótum sínum einkum að nagladekkjum. Dekkin valda svifryki sem herjar ekki á mannfólkið núna og má rekja til þess að götur séu illa þrifnar. Mengunin í froststillum stafar annars vegar af of miklu magni af niturdíoxíð (No2) og hins vegar brennisteinsvetni (H2S) í andrúmsloftinu.

Dagur B. hafnar að hætta sé af töfum á umferðarflæði um götur borgarinnar þótt mengun af völdum útblásturs bíla hafi margoft farið yfir hættumörk á fyrstu viku ársins.

Borgarstjóri og sérfræðingar hans skýra aðgerðarleysi sitt síðan með skorti á lögbundnum heimildum til að grípa til gagnráðstafana. Þetta er ekki rétt sagði Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfisrétti við Háskóla Íslands, við fréttastofu ríkisins 7. janúar. Það skorti engar heimildir í lögum eða reglugerð. Enn sé „í gildi reglugerð frá 1999 þar sem eru nefnd dæmi sem geta verið skammtímaráðstafanir sem geta til dæmis verið takmarkanir á bílaumferð, en einhverra hluta vegna telja yfirvöld í Reykjavík að þetta sé ekki nóg,“ sagði prófessorinn.

Aðgerðarleysi borgaryfirvalda vegna mengunar innan borgarmarkanna gætu falið í sér brot á EES samningnum og mannréttindasáttmála Evrópu. Borgaryfirvöld vegi að heilsu fólks með því að gera ekki neitt.

Miðað við gamla snjóruðninginn á göngubrautinni við Blindraheimilið og Hlíðaskólann þar sem lífshættan blasir við öllum eru litlar líkur á að borgaryfirvöldin bregðist við ósýnilegri hættu í andrúmsloftinu á annan veg en með nöldri yfir nagladekkjum.