26.1.2023 11:02

Landið selt á ensku

Þegar rennt er yfir niðurstöður skýrslnanna blasir við að þeim sem reka ferðaþjónustu hér er ekki sérstakt kappsmál að nota íslensku til að laða að sér viðskiptavini.

Sigríður Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Hólum, Anna Vilborg Einarsdóttir, lektor á Hólum, og Ágústa Þorbergsdóttir, deildarstjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar íslenskum fræðum eru höfundar tveggja nýrra skýrslna frá Hólaskóla um stöðu íslenskunnar í ferðaþjónustu. Fyrri skýrslan ber heitið Nöfn fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu og hin síðari Staða málstefnu í stoðkerfi ferðaþjónustunnar. Skiptir hún máli?

Frétt er um skýrslurnar í Morgunblaðinu í dag (26. janúar) en þær er auðvelt að nálgast og lesa á vefsíðu Háskólans á Hólum.

IffhndexÞegar rennt er yfir niðurstöður skýrslnanna blasir við að þeim sem reka ferðaþjónustu hér er ekki sérstakt kappsmál að nota íslensku til að laða að sér viðskiptavini, enskan er ferðaþjónustumálið eins og hún er háskólamálið og skemmtiiðnaðarmálið.

Skýrsluhöfundar undruðust ekki að stór hluti ferðaþjónustufyrirtækja, einkum þau sem eru með kennitölur yngri en frá 2010, beri erlend nöfn. Hins vegar kom þeim á óvart að sveitarfélög, landshlutasamtök og fleiri svöruðu þeim ekki þegar þær spurðu um álit um áberandi enskuvæðingu á skiltum. Sveitarfélög hafa skyldu til að setja sér málstefnu að engu. Þau gera engar kröfur um hvernig notkun tungumáls er háttað á opinberum vettvangi innan sinna marka.

Kannanir eru sagðar sýna að allt að fjórðungur ferðamanna leggur leið sína hingað til lands vegna þess að forvitnilegt þykir að kynnast fæðingarlandi íslensku fornbókmenntanna, staðháttum sem tengjast þeim eða heimabyggð Snorra Sturlusonar.

Það er grátbroslegt ef þetta fólk eða aðrir koma hingað til lands fara héðan með þá skoðun að íslenska sé aðeins til á fornum bókum af því að daglegt nútímalíf í landinu fari fram á ensku. Skýrsluhöfundar segja í umræðukafla um nöfn fyrirtækja:

„Notkun tungumáls sem fáir nota getur þjónað þeim tilgangi að marka sér sérstöðu á markaði en miðað við nafngiftir og markaðssetningu í íslenskri ferðaþjónustu virðist ekki mikil meðvitund um það.“

Alþingi samþykkti árið 2009 íslensk málstefnu með það markmið að íslenska yrði áfram aðalsamskiptamálið í atvinnulífi á Íslandi. Jafnvel í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem er 100% í eigu íslenska ríkisins á þessi stefna undir högg að sækja. Glöggir erlendir gestir telja enskuvæðinguna hér þó örugglega til marks um nesjamennsku eða afdalahátt þar sem menn þykist vera eitthvað annað en þeir eru.

Í skýrslunni um málstefnu í stoðkerfi ferðaþjónustunnar segir:

„Viðbrögð sveitarfélaganna við lagaákvæðum um málstefnu árið 2011 voru dræm og sömuleiðis við fyrirspurnum okkar en 46 af 64 sveitarfélögum svöruðu henni ekki þrátt fyrir ítrekun. Markaðsskrifstofurnar voru einnig fremur tregar að tjá sig um áherslur í málnotkun á skiltum.“

Virðingar- og áhugaleysið er einfaldlega ótrúlegt. Þeim sem hlut eiga að máli stendur á sama um enska yfirbragðið á því íslenska sem þeir eru þó að selja. Viðskiptin ráðast af vörunni en ekki enskunni.