15.10.2021 7:31

Kreddur í Reykjavík og kjaramál

Þessi tvíþætti skortur í Reykjavík á íbúðum og akreinum er ekki vegna náttúrulögmáls heldur ákvarðana meirihluta borgarstjórnar.

Gögn frá Þjóðskrá sýna að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 20,6% frá byrjun árs 2020. Meginþungi hækkunarinnar kom til sögunnar eftir að Seðlabanki Íslands lækkaði stýrivexti niður í sögulegt lágmark, 0,75%. Þá afnam bankinn svonefndan sveiflujöfnunarauka á eigin fé banka. Þeir nýttu hann til að stórauka útlán til íbúðarkaupa.

Við þessar ráðstafanir kom í ljós hve lítil dýpt var í framboði á húsnæðismarkaðnum. Í samtali við Morgunblaðið miðvikudaginn 13. október benti Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á að besta úrræðið til að bæta hag launþega væri ekki að hækka laun heldur lækka húsnæðiskostnað. Hann sagði: „[...] Þetta býður einnig upp á ákveðna möguleika á vinnumarkaðnum um að í stað þess að hækka launin verði ráðist í stórfellda uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Rétt eins og gert var þegar Breiðholtið byggðist upp.“

Þarna nefndi Ásgeir sem fordæmi samninga um lausn vinnudeilu árið 1965 sem fólu í sér að byggðar yrðu 1.250 íbúðir í Breiðholti á 5 árum eða til 1970.

Þá voru borgaryfirvöld í Reykjavík reiðubúin að koma að framkvæmd samninga af þessu tagi með því að brjóta land undir nýjar lóðir í úthverfi. Nú er byggð í úthverfi eitur í beinum borgaryfirvalda.

N-koreas-kim-renews-callÞegar í ljós kom að lækkun stýrivaxta ýtti undir verðbólgu vegna hækkunar á húsnæðisverði, verðbólgan mælist nú 4,4% en verðbólgumarkmið bankans er 2,5%, ákvað Seðlabankinn að hækka stýrivexti að nýju. Þeir eru nú 1,5%.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) birti fimmtudaginn 14. október mánaðarskýrslu sína þar sem þess sjást merki að spenna minnki á húsnæðismarkaðnum.

Hvað sem líður aðgerðum Seðlabankans bendir flest til að lítið framboð á íbúðum og mikil hækkun á verði þeirra valdi háu verði og samdrætti á húsnæðismarkaðnum.

Aðeins voru 80 nýjar íbúðir auglýstar til sölu á höfuðborgarsvæðinu í byrjun október 2021 en þær voru um 114 í byrjun september og yfir 900 í maí 2020. Þá eru 64 nýjar íbúðir til sölu í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og 19 annars staðar á landinu. Íbúðaverð hefur eins og áður sagði hækkað um fimmtung frá byrjun árs 2020.

Ásgeir Jónsson telur vandræðin á húsnæðismarkaði ekki aðeins stafa af skorti á nýju landi undir íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Skortur á innviðafjárfestingu í umferðarmannvirkjum í Reykjavík setji einnig þrýsting á fasteignamarkaðinn. Hann sagði við Morgunblaðið:

„Það er að koma niður á okkur núna. Það veldur hækkunum á markaðnum. Þær koma fyrst og fremst fram miðsvæðis og það stafar af umferðinni. Fólk borgar mjög hátt verð fyrir að komast í eignir sem liggja tiltölulega miðlægt.“

Þessi tvíþætti skortur í Reykjavík á íbúðum og akreinum er ekki vegna náttúrulögmáls heldur ákvarðana meirihluta borgarstjórnar. Meirihlutinn fylgir stefnu skerðir ekki aðeins hag borgarbúa heldur vegur að skynsamlegum leiðum um framtíðarstefnu í kjaramálum.