25.12.2017 12:31

Kirkjan, læsi og frelsi

Í bókinni Framfarir – tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi eftir Johan Norberg er læsi talið eitt af þessum tíu ástæðum, það er að kunna að lesa og skrifa.

Hollvinir Núpsskóla beittu sé fyrr á árinu fyrir útgáfu mikils ritverks eftir Aðalstein Eiríksson, fyrrv. skólameistara, um sögu skólans frá 1907 til 1992. Í inngangi að sögu skólans fer Aðalsteinn yfir íslenska skólasögu. Af lestri hennar sést hve kirkjan og prestarnir réðu miklu um menntun þjóðarinnar.

Aðalsteinn segir meðal annars frá áhrifum „píetismans“ sem á íslensku hefur verið þýtt með orðinu „heittrúarstefna“ undir miðja 18. öld þegar nær tvær aldir voru liðnar frá siðaskiptum. Fylgismenn stefnunnar voru um skeið mjög áhrifamiklir í dönskum stjórnmálum. Fyrir þeirra tilstuðlan fóru Ludvig Harboe og Jón Þorkelsson í rannsóknar- og umbótaleiðangur um landið árin 1741-1745, en áður, árið 1741, hafði ferming verið lögfest hér og skýlaus krafa um að allir lærðu að lesa.

Ludvig Harboe (1709-1783) prestur, Hólabiskup 1741-45 og jafnframt Skálholtsbiskup 1744-45, Sjálandsbiskup frá 1757.

Harboe og Jón áttu meðal annars að sjá til þess að fyrirmælunum vegna fermingarinnar yrði hlýtt. Ekki síst átti að tryggja aukna lestrarkunnáttu en aðeins helmingur þjóðarinnar var læs áður en fermingin var lögfest. Aðalsteinn segir:

„Prestum var gert skylt að húsvitja og hafa eftirlit með lestri og kunnáttu. Frammistraða hvers og eins heimilismanns var skráð í bækur, prestþjónustubækur og sóknarmannatöl. Þessi rit eru síðan undirstöðurit í sögu þjóðarinnar, lýsandi í mörgu fyrir ástand hennar og lífskjör. Meðal annarra hugleikinna atriða þessara umbótamanna var hugtakið hlýðni. Hlýðni barna við foreldra sína, vinnufólks við húsbændur, hlýðni þegna við yfirvöld en umfram allt hlýðni allra þessara við boðorð guðs. Almennt er talið að þjóðin hafi á fáum árum orðið næstum allæs eftir þetta...“

Í bókinni Framfarir – tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi eftir Johan Norberg er læsi talið eitt af þessum tíu ástæðum, það er að kunna að lesa og skrifa. Það sé lykillinn að annars konar færni, dragi oft þegar í stað úr fátækt. Geri fólk að virkum og upplýstum borgurum sem geti fylgst með og öðlast hlutdeild í þekkingu heimsins og skemmtunum.

Norberg nefnir afrísk-bandaríska þrælinn Frederick Douglass til sögunnar. Undir miðja 19. öld losnaði hann úr ánauð með því að læra að lesa og skrifa. Hann sagði að læsi hefði gert sig frjálsan.

Þekkingin sem Douglass aflaði sér með lestri varð til að hann áttaði sig á ömurlegri stöðu sinni sem þræll og þess vegna strauk hann úr ánauðinni. Þegar allir Íslendingar lærðu að lesa á tíma einveldis var ekki að tilefnislausu lögð rík áhersla á hlýðni.