25.12.2021 11:41

Jóladagur skjálfta og heimspestar

Óvissan sem ríkir um framvinduna á Reykjanesskaga er í ætt við óvissuna um framhald heimsfaraldursins en nú eru tvö ár síðan hann komst á flug í Wuhan í Kína.

Jólanóttina urðu nokkrir öflugir jarðskjálftar á Reykjanesi. Klukkan 07.26 að morgni jóladags mældist skjálfti af stærðinni 4,2 við Stóra-Hnút nærri Fagradalsfjalli þar sem gaus fyrr á árinu. Frá miðnætti í dag hafa mælst um 1200 skjálftar en alls mældust 3600 skjálftar á aðfangadag og þar af sjö sem voru 4,0 eða stærri að stærð. Frá því að þessi skjálftahrina hófst 21. desember hafa hátt í 12 þúsund skjálftar mælst, þar af fjórtán 4,0 eða stærri að stærð. Öflugasti skjálftinn til þessa varð miðvikudaginn 22. desember 4,9.

Nú er aftur sagt eins og sl. vor að beðið sé eftir gervihnattarmyndum til að unnt sé að átta sig betur á því sem gerist undir jarðskorpunni. Miðað við allt fjármagnið sem runnið hefur til þess að greina og bregðast við kórónuveirunni er undarlegt að ekki skuli séð til þess með opinberum fjárveitingum að tíðari gervihnattarmyndir berist vísindamönnum á veðurstofunni.

Furðuleg tregða hefur verið til þess að nýta gervihnattartækni hér á landi til margvíslegs eftirlits og flugleiðsögu svo að dæmi sé tekið.

Danir kynntu fyrr á árinu stórtæk áform til að auka „viðveru“ sína á norðurslóðum með meiri nýtingu gervihnatta og dróna til eftirlits. Þess hefur ekki orðið vart að íslensk stjórnvöld hafi vaknað til vitundar um þau tækifæri sem í þessu kunna að felast til að nútímavæða og færa hvers kyns fjareftirlit hér á nýtt stig. Að hafa þarna forystu er kjörið verkefni fyrir landhelgisgæsluna sem fer með daglega stjórn ratsjárkerfa og á öryggissvæðum. Við nýskipan í stjórnkerfinu sem nú fer fram ætti að líta til þess að vista fjareftirlit undir forræði eins aðila og tryggja honum aðgang að nauðsynlegum verkfærum í samvinnu við vinveittar bandalagsþjóðir og einkaaðila.

IMG_4360Horft til Esju á aðfangadag 2021.

Óvissan sem ríkir um framvinduna á Reykjanesskaga er í ætt við óvissuna um framhald heimsfaraldursins en nú eru tvö ár síðan hann komst á flug í Wuhan í Kína og breiddist þaðan til allrar heimsbyggðarinnar. Nú á jóladag 2021 berast fréttir um að vegna smitunar meðal flugmanna, flugþjóna og annarra flugliða hafi flugfélög neyðst til að fella niður rúmlega 4.500 flug, einkum vegna hraðrar útbreiðslu ómikron-afbrigðis COVID-19.

Fimm flugfélög felldu niður flest fluganna: China Eastern 474 flug, Air China 188, United 177, Air India 160 og Delta 150.

Á vefsíðu Keflavíkurflugvallar segir að á aðfangadag hafi Icelandair aflýst einu flugi, til Berlínar. Í dag, jóladag, flýgur Wizz Air frá sjö áfangastöðum til Keflavíkurflugvallar og eru allar vélar sagðar á áætlun. Ekki er annað flug um völlinn í dag samkvæmt vefsíðunni. Þar segir að allar brottfarir á morgun séu á áætlun.

Hvað sem þessu líður förum við hér ekki varhluta af þeim usla sem ómikron veldur. Á aðfangadag greindust hér 522 með Covid-19 smit, þar af 29 með landamærasmit og 493 voru greindir innanlands þar af 155 í sóttkví. Í dag eru 3188 í einangrun og 4035 í sóttkví.

Þetta er því jóladagur skjálfta og heimspestar sem setur líf margra úr skorðum.